http://www.makepovertyhistory.org

Tuesday, November 01, 2005

erfðargrípir eru háskalegir gripir

Konan mín ljómaði í framan þegar hún sagði mér tíðindin. Olla frænka hennar var að flytja og ákvað að láta stofuskenk foreldra sinna, ömmu og afa téðar konu minnar, ganga áfram niður erfðastigann. "Þetta er svo mikil mubla Bjarni, svona tekkskenkur með rennihurðum, skúffum og hillum. Mér hefur alltaf fundist hann svoo flottur, síðan er hann líka feikigóð hirsla". Þessi ofsakátína konu minnar yfir þessu mikla húsgagni smitaðist áfram til mín og var ég strax farin að raða silfurhnífapörunum í skúffurnar, mánaðarstellinu í hillurnar og fallegum innrömmuðun fjölskyldumyndun ofan á hann, án þess að hafa rekið minni í að hafa nokkurntíman séð gripinn. Þetta kvöld sofnuðum við skælbrosandi, og leiddumst hönd í hönd inn í draumalandið, það er jú ansi gaman að fá fallega hluti gefins, og ekki er leiðinlegra að það sé hlutur með fallegum minningum og sögu.

Strax eftir vinnu daginn eftir var ég gerður út af örkinni vopnaður kerru, bíl og tveggja metra heljarmenni að sækja skenkinn. Olla frænka konunnar tók mér grunsamlega vel, þar sem hún kom út á plan til að athuga hvort að kerran væri ekki örugglega nógu stór, hún ætti nefnilega borðstofuborð í stíl sem hún vildi endilega að við fengjum líka. Ég var í sjöunda himni, borð líka . Ég arkaði inn, hún skyldi sko ekki ná að skipta um skoðun. Inn í stofu stóð svo nýja borðstofusettið mitt. Ósamstæðara "sett" hef ég ekki séð hvorki fyrr né síðar. Borðið var var hvítt með renndum fótum, sennilegast frá 9. áratug seinustu aldar, að öllum líkindum sænskt frá hinni virtu húsgagnaverslun Ikea. Skenkurinn var vissulega formfagur, svona á sinn hógværa hátt. En eitthvað var hún Olla ósátt við hann á sínum tíma og ákvað því að hressa aðeins upp á hann þannig að hann færi betur við borðið. Hafði hún tekið það ráð að lakka skenkinn hvítan og hurðirnar ljósbláar, svona eins og fer himninum svo vel. Mér fannst ljósblátt ekki fara tekkskenknum mínum vel.En hvað getur maður annað gert í svona aðstæðum en að vera óendanlega þakklátur fyrir þessa mjög svo óvæntu gjöf. Þegar ég var búin að hlunka þessu út á kerru ásamt förunaut mínum hringdi ég í konuna mína. Áætlunin var að tala um heima og geima t.d. hvað hún færi nú allt of sjaldan að versla sér föt og hvað það væru margar góðar rómantískar gamanmyndir í bíó núna og svo í lok samtals rétt impra á því hvort það væri ekki rétt að ég færi bara beint á Sorpu með þetta drasl sem ég átti víst að sækja. Ég hef aldrei óttast um líf mitt en eftir að ég sagði orðið Sorpa hafði ég ástæðu til að óttast. .Plan B. var háskaleg og djörf áætlun og var henni umsvifalaust hrint af stað. Plan b. fól í sér að keyra með draslið óbundið á kerrunni á 90 kílómetra hraða alla leiðina heim og slá ekki af fyrir neitt heldur auka heldur hraðan yfir hraðahindranir og í vinkilbeygjum. En auðvitað komst "settið" heilt heim þar sem konan mín beið alveg að springa úr spenningi. "Mikið er hann flottur" sagði hún með sannfæringarhljóm þar sem við stóðum fyrir framan ljósbláa ferlíkið sem hafði komið sér makindalega fyrir á stofugólfinu. "þú þarft bara að pússa smá" . ég horfði skilningsvana á hana. Gat verið að hún ætlaðist til að ég færi að slípa þetta upp??? Svarið lá í augum uppi svo ég reyndi að að beita rökum, það færu minnst 10 lítrar af málningaruppleysi á þetta og þegar það væri búið að ná litnum af þá þyrftum við að kaupa svona 80 fermetra af sandpappír og hafa 200 lausar klukkustundir til að vinna þetta. Mér lýst vel á þetta hjá þér Bjarni drífðu bara í þessu.


Síðan er liðið eitt og hálft ár. Hálfpartinn var ég að vona að hún gæfist upp og segði að við skyldum bara losa okkur við hann eða að hún myndi fara að gera þetta sjálf. En svo heppinn er ég ekki því að mér hefur verið tjáð það að þessi skenkur skuli vera tilbúin fyrir næstu jól. Þannig að nú fara allar mínar frístundir í að skafa,slípa og olíubera. Af borðinu er það að frétta að ég málaði það grænsanserað með hömmruðu hammerite vinnuvélalakki og er það hið undarlegasta eftir þá framkvæmd. Jæja skyldan kallar, farinn að slípa...
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home