http://www.makepovertyhistory.org

Monday, January 31, 2005

þrítugastaogfyrstadagsblús

"Brennivínið búið, blómið dautt" sagði alkinn þegar allt var komið í þrot á hans heimili. Hinum föla föður dettur þessi setning stundum í hug þegar að fer að nálgast lok mánaðarins. Sem sagt algjört núll eftir enn einn uppskerubrestinn á peningaakrinum. Það er á svona dögum sem að fjölskyldan stendur fyrir framan ísskápinn og virðir fyrir sér fagurlega hannaðar hvítar hillurnar.

Hin föli: Ætli það sé hægt að steikja tómatsósu?
Frúin: Eflaust,við eigum hvítlauk og smá ost.
Hin föli: Noh... Mér sýnist að við eigum bara allt sem þarf í föli special, ég get kanski fundið einhverja brauðenda í frystinum.
Frúin: Æ Bjarni ekki það óæti, þú ert rétt nýbúinn að jafna þig í maganum eftir að þú eldaðir föli's special seinast.

Heimasætan svakasæta Hekla kemur að.

Hekla: Heyrði ég einhvern minnast á föla's special.
Hin föli: Þú heyrðir rétt ungfrú, rétturinn í kvöld verður borin fram á brauðbeði með kraftmikilli soyasósu og skreittur með aloe vera.
Hekla: Var ekki soyasósan löngu útrunnin og aloe vera blómið dautt?

Löng þögn.

Frúin: Hekla hringdu í ömmu þína og segðu henni hvað pabbi þinn er að gera.

Og að sjáfsögðu kemur amman til hjálpar á elleftu stundu, rétt áður en sá föli skellir tómatsósunni í ofninn.

En á morgun er fyrsti feb. Fyrsta dag hvers mánaðar er skylda að eyða eins miklu af peningum og maður mögulega getur. Svona til að vera eins og allir hinir.Það er líka hægt að gera rosa góð kaup á þessum útsölum. Manni vantar alltaf eitthvað smotterí úr epal eða eitthvað aðeins flottara en Jens Pétur vinur okkar á. Hann var að fá sér nýja tölvu, helvítið af honum.

Note to self. Kaupa nýtt aloe vera blóm og soyasósu, athuga stöðuna á hvítlauk og setja eina 500 ml tómatsósu í frystinn.
|

Friday, January 28, 2005

Verði minn vilji á jörðu sem og himni

Ég er að hugsa um að fara í litgreiningu. Ég held nefnilega að ég sé vor. Faðir vor. Þetta gæti gert jarðarförina mína yfir meðallagi skemmtilega og minningagreinarnar mun athyglisverðari fyrir þá sem mig ekki þekkja.

"Þegar Bjarni var 28 vetra var hann greindur vor. Hann var faðir vor. Nú er hann á himnum"

Síðan gæti ég ég í sífellu verið að leiðrétta fólk sem er að fara með faðir vorið. Eins og með að benda á að ég væri ekki kominn til himna enn, að ég sé nú eiginlega ekki eigandi ÁTVR þó að vissulega eigi ég smá hluta í því ."Gef oss í dag vort daglegt brauð og fyrirgef oss vorar syndir" gæti reyndar kannski staðið aðeins í mér svona í einstaka tilfelli. Sennilegast myndi ég reyna að láta mig hverfa, alla vega úr mjög fjölmennum messum eins og skátamessum og fermingum áður en þessar línur yrðu tautaðar.


Þá er bara að hafa upp á Heiðari snyrtipinna, vona bara að pinninn verði til friðs.

|

Thursday, January 27, 2005

Eniga meniga

Ég var sendur út í bæ að vinna í dag. Áfangastaðurinn var einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu sem jafnaldri minn 28 ára gamall maður á. Verkefnið var að klæða vegg í kring um sjónvarp. Þar sem ég stend með hamarinn og sögina kemur verkstjórinn að mér horfir á mig um stund og segir. "Heyrðu vinur þú ferð nú kannski varlega í þetta". Ég sármóðgaðist auðvitað og sagði honum að ég kynni ekkert að fara varlega. Það þyrfti bara að rusla þessum andskota af. Hann klappaði mér á öxlina og sagði,"ja þú reynir kannski þetta er nefnilega 2. MILLJÓN króna sjónvarp og hátalararnir kosta 600.000. Og þetta er í svefnherberginu hjá honum. Varlega áætlað kosta græjur í allt húsið s.s. sjónvörp, geislaspilarar og hátalarar um 13 milljónir. Ekki það að mér finnist eitthvað að þessu . Maðurinn er greinilega á aðeins hærri launum en ég og kann að njóta þess. En samt hugsar maður stundum þegar maður kemur heim til svona gæja. Af hverju í ósköpunum þurfti ég að fá áhuga á að læra á hamar og sög? Ég hefði getað haft það sem hobbí.
|

Um hvernig ósk um lús varð að ásetningi um að hætta að reykja

Núna á dögunum fékk hinn föli faðir símtal. Ekki það að mér berist svo sjaldan símtöl að ég verði að monta mig sérstaklega af því. En þetta var mjög áhrifaríkt símtal. Á hinum enda línunnar var barnsmóðir mín, Inga sem ég á eldri dóttir mína Bryndísi með. Innihald símtalssins var í senn hrollvekjandi og spennandi. Þannig var nefnilega mál með vexti að Bryndís sem var þá nýfarin heim eftir helgina hafði verið svo morandi í lús við heimkomuna að móðir hennar bað hana mörgum sinnum að taka af sér húfuna. Ég reyndi að hljóma eðlilega en sennilegast hefur röddin titrað og tal mitt verið samhengislaust. "Við erum með lús" hrópaði ég um leið og samtalinu lauk, og greip um hausinn til að passa að þær myndu ekki sleppa. "Loksins erum við orðin alvöru íslendingar, eins og Jón Sigurðsson eða Jón Hreggviðsson, grálúsug og fín". Sagði ég af miklum eldmóð. Öðrum heimilismeðlimum fannst þetta ekki vera góð tíðindi og fóru að klóra sér sem mest þeir máttu. Hin föla móðir rauk til að finna þar til gerðan kamb. Ég dró yngri dóttur mína hana Heklu afsíðis og fór að úskýra fyrir henni af hverju það væri svona mikil blessun að vera með lús.

Ég: Veistu það Hekla að allar hetjur íslendingasagnanna voru grálúsugar.

Hekla: Pabbi. Vertu ekki með þessa vitleysu. Lús er vandamál.

Ég: En elsku Hekla mín. Hugsaðu þér bara Snorra Sturluson. Andvaka af kláða skrifaði hann Eddu og Eglu. Lús er góð fyrir heilann.

Hekla: Pabbi. Þú kvartar nú alltaf yfir því þegar þú verður andvaka. Þetta hljóta að vera mjög pirraðar bækur.

Ég: Nei þetta eru mestu rit íslandsögunnar .

Hekla: Lús er vandamál eins og reykingar. Hvenær ætlar þú að hætta að reykja?

Ég: Við vorum ekkert að tala um það.

Hekla: Nei en ég vil vita það

Snörunni hafði verið smeygt lymskulega um hálsinn á mér og ég fann hana herðast að. Nú þurfti að koma með útspil sem myndi kæfa þetta í fæðingu.

Ég: Allar stelpurnar í Nylon eru með lús.

Hekla: Reyndu ekki að plata mig svona. Hvenær ætlar þú að hætta? Þú hefur oft sagt að þú ætlir að gera það.

Það var aðeins eitt að gera. Standa upp og leita að lúsakambinum og vona að hún myndi gleyma þessu.


Ekki fengum við lús. En eftir þetta er alltaf horft á mig með ísköldu augnaráði þegar ég klóra mér í hausnum. Svona eins og þær haldi að ég vinni að því að ættleiða mér lítinn lúsarunga. Eitt lærði ég þó á þessu. Ég verð ekki frjáls maður fyrr en ég hætti að reykja.


|

Tuesday, January 25, 2005

Dulkvóðaðar þvottavélar og iðngreinar

Ég er nútímamaður. Vakna (varla þó) við vekjaraklukkuna í gsm símanum mínum, fæ mér rjúkandi kaffi úr tímastilltu kaffikönnunni minni. Fylgist með fréttum á netinu og á textavarpinu, heyri þær líka á klukkustundar fresti í tölvustírða útvarpinu á heyrnarskjólunum mínum. Ég fer heim til gamlingja og stilli sjónvörp og dvd spilara og í vinnunni vinn ég aðalega á tölvustýrðri trésmíðagræju. En ég hef aldrei getað lært alminnilega á þvottavél.Ég held að þvottavélar séu dulkvóðaðar, og þó þeim fylgi nákvæmur leiðarvísir meikar hann ekkert sens. Af hverju í ósköpunum þarf maður 200 prógrömm til að þvo þessa leppa sína? Eitt prógramm fyrir mjög skítugar gólftuskur og spariskyrtur, annað fyrir fyrir sokka með táfýlu af gerð 3 og sundföt, enn annað fyrir þæfðar ullarbrækur og þvottapoka. Hvurninn á maður að muna þetta? Ég held að þvottavélaframleiðendur séu í einhverju leynibandalagi, þeir reyna að troða svo mikið af tökkum og snúningsskýfum,ljósum og bókstöfum á þessar græjur að nútímamaðurinn fellur í trans þegar hann sér þær og verslar þær sem í leiðslu. Ég veit ekki betur en að hún amma mín hafi bara farið með druslunar út í læk, og gott ef þær urðu bara ekki hreinar.



Annað sem er mér görsamlega lokuð bók eru iðngreinar. Það vantar nú nokkra kafla í þá bók, það er eiginlega ekki farið að skrifa neitt í hana ennþá. Að vera iðnaðarmaður er undarlegra og óverðskuldaðra djobb en mér hefði órað fyrir í mínum villtustu draumum. Sérstaklega finnast mér peningamálin undarleg. Ég skal taka 2 dæmi,

Iðnaðarmaður fær símtal síðla kvölds. Á hinum enda línunar er maður sem bráðvantar vegg helst strax til að hengja nýja 400 000 kr sjónvarpið sitt á. Iðnaðarmaðurinn mætir á staðinn og gerir tilboð, tilboðinu er tekið og allir eru voða glaðir. Iðnaðarmaðurinn fer með bros á vör í húsasmiðjuna kaupir efni í vegginn, pantar og borgar sendibíl undir það og mætir á staðinn til í slaginn. Einum og hálfum degi seinna er hann að bera seinustu efnisafgangana út í gamla ryðgaða bílgarminn sinn til að fara með þá á sorpu, þar sem hann þarf að borga fyrir að farga þeim. Veggeigandinn stendur með bros á vör í hurðinni og þegar margumræddur iðnaðarmaður er að ganga út heyrir hann sagt að baki sér. "Hurðu ég tala svo við þig í næsta mánuði ég á nefnilega von á peningum þá".....Mér þætti gaman að sjá hann reyna þetta í hagkaup. Ekki get ég farið út í búð og borgað seinna.Af hverju fær hann sér ekki bara vegg í næsta mánuði? Ótrúlega algengt dæmi og sennilegast bara af því að við látum þetta yfir okkur ganga. Það er eins og okkur finnist þetta bara eðlilegir viðskiptahættir.


Þar sem ég er smiður ætla ég að taka annað dæmi úr þeirri mögnuðu stétt.Jesú fór jú að prédika þegar hann gafst upp á þeirri eðlu starfsgrein.

Smiður fær það eðla verkefni að smíða glugga. Hann fer því í Húsasmiðjuna eða Byko í efnisöflun. Þegar hann kemur niður á verkstæði með þessar líka fínu spítur ákveður hann að fá sér kaffibolla og kíkja í blaðið. Á bls 4 í blaðinu er heilsíðuauglýsing frá efnissalanum. Unnið gluggaefni á tilboði stendur stórum stöfum og fyrir neðan er mynd af handlögnum faðir að skrúfa saman glugga með börnin sér til halds og trausts. Öll brosandi og ánægð yfir því hvað það er nú létt og gaman að smíða svona glugga. Óunnið gluggaefni var ekki á tilboði, Óunnið gluggaefni er dýrara en unnið gluggaefni. Efnissalinn á nefnilega verksmiðju í lettlandi þar sem hann lætur framleiða unnið og óunnið gluggaefni og samsetta glugga fyrir íslandsmarkað. Hann á líka trjávinnsluna og hlut í skipafélagi. Þannig er efnissalinn helsti samkeppniaðili smiðsins. Húsasmiðjan og byko framleiða líka innréttingar og eiga trésmíðaverkstæði sem er í beinni samkeppni við okkur.Þetta látum við líka yfir okkur ganga án þess að einu sinni heyrist í okkur múkk.


Og svona að lokum. Hafið þið prófað að spyrja iðnaðarmann hvernig gangi? Ég hugsa að í svona 80% tilfella verði viðkomandi doldið niðurlútur og segi svo lágt að það varla heyrist "svona þokkalega". Svona eins og hann sé að deyja úr skömm yfir kunnáttuleysi eða einhverju. Geta menn ekki bara sagt að hlutirnir gangi hratt og vel kanski framar björtustu vonum,hvernin sem gengur? Þessi barlómur í mönnum skilar engu nema vandræðum. Þeir þurfa að þá að fara að útskýra hvað gangi ekki nógu vel og af hverju o.s.f.r.v.

Ég er kanski búin að láta pirringinn taka alveg stjórnina núna. En mér sýnist að iðnaðarmenn séu ekkert nema aular.

|

Sunday, January 23, 2005

Sjónvarpsóstjórn inmemorium

Ég bíð spenntur eftir að sjónvarpstjórastaða RÚV verði auglýst laus, ég hef nefnilega ákveðið að sækja um. Markús er svo sem ekki alslæmur þar sem hann situr í stólnum sínum og gerir ekkert af sér. Kannski gerir hann bara ekki neitt. Það fyrsta sem ég mun gera er að biðja auglýsendur að snúa sér eitthvað annað. Að þessi stofnun sé að stórum hluta rekin á auglýsingum er auðvitað hneyksli og enn verra finnst mér að það séu fengnir kostendur á þætti.

Eftir að ég verð búin að redda þessu prinsipp máli mun ég einbeita mínum vel fókuseraða huga að íslenskri dagskrárgerð. Ég held að hún sé nánast ekki til hjá ríkissjónvarpinu. Finnst ykkur ekki forkastanlegt að taka gamalt flopp eftir Hrafn G. og búta það niður í þætti eða að kaupa einfalt efni eins og Maður er nefndur á margar millur? Á að leyfa pólitíkus eins og Gísla Marteini að hafa skemmtiþætti og finnst einhverjum spaugstofan svo mikið sem brosleg? Af hverju þessi stutti útsendingatími, væri ekki nær að endursýna t.d. Stiklur og gömul áramótaskaup á nóttinni? Eru spurningar sem ég mun spyrja yfirmenn íslenskrar dagskrárgerðar. Meðan að fólkið væri að meðtaka þessa augljósu speki mun ég síðan skella fram hugmyndum af nokkrum þáttum sem ég er viss um að íslendingum dauðklæjar í augntóftinar að sjá.

Nr 1.Innbrot útbrot. Lalli Johns brýst út af hrauninu vikulega og brýst inn í hús að vali þjóðarinnar sem verður valið með sms kosningu.

Nr 2. Á túr með Tóta. Þórhallur Tyrfingsson sýnir gamalkunna takta þar sem hann slagar niður Laugarveginn og talar um gamla tíð. Aldrei nógu mikið af sagnfræði í sjónvarpi.

Nr 3. Geir er góður. Geir Haarde tekur á móti símtölum frá öryrkjum og láglaunafólki og kennir því að spara. Eftir nokkra þætti gæti þessum titli verið breytt í Geir grefur sér gröf.

Nr 4. Gunnar guðrýnir. Gunnar í krossinum fer í kirkjur landsins, fær sér messuvín með prestunum og gagnrýnir messuhaldið.


Þegar ég verð búinn að koma þessu öllu í framleiðslu læt ég nokkra hausa úr afnotadeildinni sem hafa gert mér lífið leitt um dagana fjúka.
Svo er það áramótaávarpið. Ekkert Skriðuklaustur fyrir mig takk. Tekið upp á blússandi ferð í strætó þar sem ég send á einum fæti á kassa eftir að hafa svindlað mér inn. Tala um gildi sjónvarps í nútímanum og lofa vönduðu alíslensku ofbeldi, erótískum þáttum með íslenskum leikurum, að fá glamúrgellu í stundina okkar. Síðan mun ég tilkynna að Megas hafi verið gerður að fréttastjóra RÚV, Gerður B. Bjarklind að tónlistastjóra og að Jónsi í Sigurrós muni hér eftir gaula inn á stillimyndina. Ég er þess fullviss að það verður auðsótt mál að fá þetta djobb. Eða vitið þið um einhvern sem myndi standa sig betur?

|

Friday, January 21, 2005

Bóndadagur,upphaf súrra punga

Í dag er Bóndadagur, langþráður af íslenskum karlmönnum. Ekki vann ég keppnina kynþokkafyllsti karlmaðurinn á Rás 2 þetta árið en læt það ekkert á mig fá fullviss um að vinna hana næst. Bóndadagur og Konudagur eru gamlar og góðar íslenskar hefðir og hef ég líka heyrt að til sé íslenskur dagur sambærilegur Valetínusardeginum, það ku vera Sumardagurinn fyrsti. Persónulega finnst mér nú að Íslendingar ættu að heiðra þann dag frekar en daginn hans Valetínusar, það er líka eitthvað svo viðeigandi að heiðra ástina á degi sem er tileinkaður frjósemi og góðri tíð. Bóndadagur er líka táknrænn sem 1. dagur Þorra. Mér finnst það afskaplega ósanngjarnt að tengja þennan notalega dag við draugúldinn mat. Þannig lendir margt karlmennið í þeirri skelfilegu aðstöðu að konan hans ætlar sér að vera virkilega góð við hann. Og þegar hann kemur heim tilbúin til að sökkva sér í sófan og láta færa sér kaffi og konfekt jafnvel lítið staup af koníaki svona til hátíðarbrigða. Þá er skellt á stofuborðið trogi fullu af ónýtum mat og Brennivínsflösku. Síðan standa þessar elskur brosandi fyrir framan okkur fullvissar þess að þetta hafi við nú hitt í mark. Og við verðum að gleypa þetta í okkur svona til sönnunar þess að við séum karlmenni komin af víkingum. Það er nefnilega svo undarlegt með þennan þorramat. Loksins þegar íslendingar voru allflestir a.m.k. hættir að láta sér detta í hug að éta þetta íllmeti þá datt einhverjum snillingnum í hug að akkúrat þetta væri nú sniðugt að halda í, þetta væri svo stór hluti af hinni íslensku menningu, og svo hélt hann Þorrablót. Einhverstaðar heyrði ég að það séu ekki nema svona 50 ár síðan og að þetta þorrablót hafi verið haldið á Naustinu. Og Þorrablót eru þjóðlegur og góður siður ekki ætla ég að setja út á það en mér er fyrirmunað að skilja af hverju það þarf að vera eitthvað tengt við skemmtun eða gamla góða daga. Mér finnst að íslendingar ættu að vera háskælandi á þorrablótum og minnast þeirra tíma þegar að þeir þurftu að versla maðkað mjöl af dönskum.


Ekki held ég að fólki finnist þetta verulega góður matur. Allavega ekki nærri eins mörgum og vilja meina að þeim finnist það. Allflestum finnst nú nóg að fara á eitt þorrablót á ári og ekki veit ég um neinn sem vildi vilja hafa þetta í matinn á jólunum. Þetta er svona eins og skatan sem öllum finnst vera þvílíkt hnossgæti en borða bara á Þorláksmessu. Enda var það ekki komið til af góðu að íslendingar hafi söfnuðu pungum í fötu og helltu mysu yfir og átu það svo þegar allt annað var þrotið mörgum mánuðum seinna.


Svo þegar þessu þorrastandi linnir svo þá er það konudagurinn. Ég held að konan mín yrði nú ekkert sérstaklega ánægð ef ég gæfi henni súrmat og svartadauða, kyssti hana á kinnina angandi af úldnum hákarl og segði nú er akkúrat tíminn til að borða þetta alveg í endann á þorranum þá er þetta bragðmest og best. Sennilegast yrði troginu fleygt út af svölunum og mér með.
|

Wednesday, January 19, 2005

Njósnari hinnar íslensku sauðkindar. 00svefn

Í gegn um tíðina hef ég gegnt hinum ýmsu störfum fyrir þjóð mína . Ég hef framið valdarán í suður Ameríku og komið íslenskum í æðstu valdastöður þar, orðið vitni af óskaplegri spillingu sem varðaði innflutning á kínverskum kjarneðlisfræðingum inn í landið þar sem þeir áttu að smíða kjarnorkukafbáta í Straumsvík sem áttu síðan að eyða óvinum USA. Ég hef staðið í ströngu við að upplýsa morðið á forseta vorum og upplýsti það reyndar og ekki má gleyma þegar ég kom í veg fyrir að ísland yrði gert að einu af ríkjum Bandaríkjanna einsamall. Ekki hafa allar þessar gjörðir mínar þó verið svona hetjulegar. Ég minnist þess td. að hafa verið fjöldamorðingi sem drap með slaghamri og að hafa eitt sinn stolið hempu Jóns Arasonar og slegið mig sem biskup. Mikil sorgarsaga það sem ég er sem betur fer að mestu búinn að gleyma.


Öll þessi afrek mín eiga það sameiginlegt að vera unnin í skugga nætur meðan ég sef. Draumfarir hins föla föðurs eru kynjaheimar spennusagna og súrealisma þar sem baráttan milli góðs og ills er aldrei langt undan. Oft eru Bandaríkjamenn óvinir mínir í þessum draumum mínum og undantekningalaust hef ég stolið litlum grænum rússajeppa af föður mínum, alveg að drepast úr áhyggjum yfir því að vera akandi. Ég hef nefnilega aldrei tekið bílpróf. Og þar sem ég lalla á 20 kílómetra hraða alveg í öngum mínum yfir prófleysinu koma þessir andskotar á eftir mér á nýjustu stríðstólum, skriðdrekum, þyrlum og Hummer jeppunum sínum en aldrei eru það samt aðaláhyggjurnar heldur skortur minn á ökuréttindum. Þeir ná mér nefnilega aldrei, því að eltingaleikir þessir enda alltaf upp á Vatnsenda, alveg gjörsamlega óháð því hvort þeir byrja niður á torgi eða í Bólevíu. Alveg frá því að ég var barn hef ég átt mér leynigöng í draumum mínum, upp á Vatnsenda. Oft hef ég reynt að komast að því hver sé ábyrgur fyrir þessum göngum, mig rámar eitthvað í að þau séu tengd taflmönnum. Alla vega liggja þessi göng frá stóra mastrinu á Vatnsenda niður á langa ganginn sem er niður á Landspítala. Niður á Landspítala á ég mér svo öfluga bandamenn sem eru skúringakonurnar. Þær fela mig yfirleitt, svo snilldarlega útsjónasamar að það er mesta furða að þær skuli ekki allar vera komnar í þjónustu CIA eða KGB.


Þessar draumfarir mínar geta verið afskaplega raunverulegar og fyrst þegar ég vakna á morgnana er ég í miklum vandræðum með að staðsetja mig, hvort ég sé staddur í sjúkrarúmi niður á Landsa eða hvar ég sé eiginlega. Það er líka doldið skemmtilegt hvurnig líf mitt tvinnast inn í þetta. Ég hef til dæmis í raunveruleikanum aldrei tekið bílpróf, mamma mín var skúringarkona á landspítalanum og pabbi minn átti rússajeppa sem mér þótti mikill gæðagripur þegar ég var krakki. Það er stundum mikil tilhlökkun að fara að sofa því að stundum finn ég á mér að ég á spennandi nótt fyrir höndum og stundum dreymir mér jafnvel framhald næstu nótt.


Áður en ég fer að sofa í kvöld ætla ég að reyna að lesa eins mikið og ég get um Hugo Chaves, ég hef nefnilega mikinn áhuga á að taka þátt í fátækrabyltingunni. Reyni kanski að stinga nokkra brjálaða olíubaróna af á rússanum hans pabba meðan ég plana að stofna skóla víðs vegar um landið.

Með von um spennandi draumfarir.
Bjarni Magnússon.

|

Monday, January 17, 2005

Að græða eða græða ekki, það er munurinn

Hinn föli faðir er fúllyndur þessa daganna, þ.e.a.s. fúllyndari en flesta aðra daga. Það sem orsakar þessa manndrápsfýlu eru íslenskir leigusalar. Ég held að það sé ómögulegt með öllu að ætla að eiga viðskipti við svoleiðis menn nema helst þá ef maður er útfararstjóri. Allaf eru þessar manneskjur svo yndislegar þegar maður hittir þær, ljúfmennskan uppmáluð þar sem þeir telja upp alla kosti þess að leigja akkúrat þessa íbúð. Ef maður er síðan svo heppinn að heyra nokkurn tímann í þessum aðilum aftur eftir að þeir eru búnir að lofa manni uppþvottavél, gardínum og glænýju parketti á íbúðina, allt af því að maður er nákvæmlega rétti aðilinn í þeirra ómetanlegu eign þá er það ekki nema til að að þeir geti sagt manni að fjarskyld frænka frá Tokyo hafi komið skyndilega og sé flutt inn. Helst væri ég til í að senda alla þessa aðila á einhverja klingonanýlendu og stofna hákommúníska úthlutunarnefnd um eignir þeirra. Djöfull er þetta snjöll hugmynd, við gætum kallað þetta verkamannabústaði.


Annars er allt búið að liggja í veikindum á þessu heimilinu seinustu daga, hitamet hafa verið slegin hvað eftir annað og á heimasætan vinninginn þessa stundina með rétt tæp 40 stig á celsiuskvarða. Hinn föli faðir hefur því setið áhyggjufullur við rúmstokkinn seinustu vinnudaga og strokið sveitt enni með köldum þvottapoka meðan að heimasætan sagði gríðarspennandi sögu í óráði sínu um galdramenn og álfa sem heyja stríð við valdablokk verktaka sem eignast vilja klettabelti það sem þeir lifa. Ég bölva leigusalanum í hljóði fyrir að ætla að reka okkur úr steypuklumpnum.


Svona mér til yndisauka og töluverðrar gleði náði ég nú samt að slíta mig úr morðhugleiðingum mínum gagnvart leigusölum þegar ég þurfti að skreppa út í bakarí í dag. Þvílík hugljómun þegar ég þurfti að taka upp veskið. Ekki mynnist ég þess að hafa verið mjög fjáður sem barn en ég er samt nokkuð viss um að ég gat verslað í bakaríinu án þess að setja foreldra mína á hausinn. 1500 kall fyrir nokkrar brauðbollur og mjólk. Telst það eðlilegt? Ég er kannski bara svona utan við mig að 300% verðhækkanir fara fram hjá mér eins og mýfluga á heitum sumardegi. Er bjór virkilega það eina sem lækkar í verði? Það sést allavega á verðlaginu á öllu öðru að það er góðæri. Fyrir hverja er þetta góðæri svona gott? Ég man ekki einu sinni hvenær ég hækkaði seinast í launum það var kannski einhverntíman rétt eftir aldamót. Eftir skatta og allt það eru þessar bollur kannski tæplega 2 tíma vinna hjá mér. Ég held að ég fái mér hænur, belju og lítinn kornakur út á svalir á næstu íbúð. Bara að fá langan leigusamning fyrst.


Rosalega get ég vælt. Kannski að ég reyni að ná mér í einhver dramaverðlaun fyrir þessa síðu. Það hlýtur að vera til hámenntuð þokkalega virt sænsk akademía sem afhendir verðlaun fyrir svona melancholýsk skrif. Vona bara að það séu peningaverðlaun.

|

Friday, January 14, 2005

Íslenski draumurinn

Dimmblá er orðin 15 ára og er að útskrifast úr 10 bekk. Kennarinn er að kveðja bekkinn og spyr nemendur sína hvað þeir ætli sér nú með framtíðina. Orpheus ætlar að fara í stjórmálafræði, Armenía hefur hugsað sér að fara í líffræði, Cýrus ætlar að verða lögfræðingur eins og foreldrarnir, Dimmblá ætlar að vinna í frystihúsi eins og amma sín. Það slær þögn á bekkinn,"já ætlarðu þá að sjá um bókhaldið eða Evrópusamninga?" spyr kennarinn,"ætlar þú í lögfræði eða hagfræði eða eitthvað slíkt?" Nei ég ætla að vinna með höndunum, roðfletta, snyrta flökin og ormhreinsa.

Blessuð sé minning hennar. Hún var góð stúlka og fram að þessu hafði hún verið talinn greind og skynsöm, en hér skylja leiðir við hina Íslensku herraþjóð.

Hvaða rugl og vitleysa er nú farinn að flæða fram af fingrum hins föla föðurs? Getur verið að maðurinn sé endanlega búinn að tapa sér og væri best geymdur inn á hæli með Jesú hinum þriðja og Snorra Sturlunarsyni? Ekki skal ég dæma um það en menntasnobb landans er farið að fara verulega í mínar fínustu. Ekki get ég með nokkru móti skilið að þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leiti á fiskveiðum fái ekki þegna sína til að vinna í þeim iðnaði. Ekki er það talið boðlegt íslenskum að vinna við hvað sem er. Önnur starfsgrein sem menntasnobbið hefur farið með ljáinn um er vinna á öldrunarstofnunum. Þegar amma mín heitin (sem bakaði þær albestu pönnukökur sem sögur fara af) ákvað að fara á elliheimili þá orðin 92 ára gömul varð hún skyndilega mállaus, ekki vegna elliglapa eða líkamlegrar hrörnunar heldur vegna þess að gömlu konunni láðist að læra pólsku og kínversku.


Hinn Íslenska þjóð á sér nefnilega draum, háleitan og fallegan draum um menntaða þjóð sem aðrir líta upp til með lotningu, þjóð sem deilir auð sínum með þriðja heiminum vegna þess að við erum svo góð, þjóð sem selur hugvit og þekkingu yfir hafið til fjarlægra landa. Ríka og göfuga þjóð sem ekkert skortir, einskonar Atlantis, við gætum heitið Íslandis.


En þangað til að þetta verður að veruleika, á meðan að leiðtogar framtíðarinnar sitja á skólabekk og lesa um hvernig Ísland verður ríkasta þjóð í heimi þurfum við ódýrt vinnuafl til að vinna fyrir okkur, útlensk stófyrirtæki til að byggja stórar verksmiðjur og skattalöggjöf sem gerir okkur að vænlegum kosti fyrir auðmenn.



Árið er 2035 staður Fossvogskirkjugarður.
Það er verið að afhjúpa minnisvarða um hinn íslenska verkamann, hann stendur hokinn með stál í annari hendi og hníf í hinni. Við fætur hans liggja tvær verur, Óhamingja og Fáviska. Augnsvipurinn er einbeittur og dreyminn þar sem hann horfir í átt að háskólanum.



|

Tuesday, January 11, 2005

Valkyrjan Matthíasdóttir

Ég er mikill aðdáandi Valgerðar Matthíasdóttur, í gegnum tíðina hef ég borið við faglegum áhuga þar sem ég vinn við að smíða innréttingar en sannleikurinn er sá að Vala Matt. er hin fullkomna kona í mínum huga. Árum saman hef ég logið mér upp verkjum í fótum eða baki, þóst vera að þurrka af sjónvarpinu eða fundið mér einhverja þokkalega trúanlega ástæðu til að vera fyrir framan sjónvarpið kl. 21 á þriðjudagskvöldum þegar að valkyrja smekkvísinnar stígur fram fyrir alþjóð ásamt meðreiðarfólki sínu í sjónvarpsþættinum Innlit útlit. Alltaf stígur valkyrjan sjálf fyrst á stokk, svo geislandi af hreysti og smekkvísi að maður fær hroll af aðdáun svona eins og ég fæ alltaf þegar ég hlusta á Janis Joplin syngja summertime. Og þvílík smekkvísi. Ég held að Vala Matt. sé svona 9 hæðum ofar en allir aðrir þegar kemur að því að hafa vit á hönnun og handbragði. Henni finnst hreinlega allt flott. Þó henni væri sýnt haughús gæti hún fundið á því einhverja góða punkta, "rosalega er þetta praktísk hönnun" eða "já þú hefur ákveðið að hafa veggina svona hráa, bara steypuna ekkert málað" eru setningar sem Valgerður gæti sagt og meint um eitthvað sem við hin vildum helst ekki koma nálægt. Og ef eigandi haughússins væri kannski eitthvað ósáttur við það myndi Vala ekki vera í vandræðum með að gera úr því tannlæknastofu án þess að kosta neinu að ráði í það. Og ekki má nú gleima förunautum Völu en þeir hafa verið alveg dásamlegir sumir hverjir enda greinilega handvaldir af Valgerði sjálfri. Arthúr Björgvin Bollason var mjög djarft og skemmtilegt útspil og hefur hann ekki sést eins hip og flottur síðan hann lýsti júravisjón á sínum tíma. Sönn íslensk karlmennska þar á ferðinni. Friðrik Weitekkert var glæsilegur fulltrúi ungu kynslóðarinnar þar sem hann brunaði milli húsa og bannaði fólki að henda gömlu innréttingunum, þær væru svo góðar að þær ættu allavega 50 ár eftir, Katrí er greinilega einstaklega ráðagóð og sést það vel þegar hún fær fólk til að raða húsgögnunum sínum upp á nýtt og segir síðan að þessi hönnun sé mikið betri.
Núna áðan var ég að horfa á Stefán Boga "gera nýja innréttingu úr engu" eins og það var orðað. Það eina sem hann gerði var að skipta um allar hurðir og skúffufronta og þá var hún bara eins og ný. Magnað. Sérstaklega þar sem þetta lítilræði sem hann gerði kostar svona 70% af heildarverði alveg nýrrar innréttingar.


Að endingu vil ég nú benda á að Vala er nú gamall fréttarefur og datt mér í hug að þar sem stöð 2 var að reka Sigríði úr fréttastjórastöðunni væri alveg rakið mál að fá Völu í þetta. Hugsið ykkur bara hvað það væri frábært. Ekkert nema smekklegar og góðar fréttir. Og þó að ég vilji nú engum illt þá þyrfti hún nú að byrja á því að reka þennann lummulega Pál Magnússon.
|

Monday, January 10, 2005

Kannski hefði ég átt að verða trúður

Sumir dagar eru óheilladagar hjá hinum föla faðir. Það vill svo óheppilega til að 10. janúar er einn þeirra. Ótrúleg óheppni mín jaðrar við eitthvað sem maður sér bara í bíómyndum t.d. er ég að bögglast við að skrúfa í skúffu, missi skrúfuna, beygi mig eftir henni rek hausinn í og missi skrúfjárnið sem lendir að sjálfsögðu með oddinn beint ofan á stóru tánna á mér. Rek upp öskur og blóta og ákveð að fá mér kaffi og sígó, helli kaffinu yfir vinnuborðið og þegar ég er að göslast við að þurrka það hendi ég skrúfupakkanum á gólfið, 2000 skrúfur rúlla um allt. Leita að kúst, finn hann hvergi svo að ég ákveð að tína þær upp og sting mig að sjálfsögu á puttunum. Ákveð að gera aðra atlögu að skúffunni og er þá búinn að týna skrúfjárninu.


Vissulega getur þetta verið kómískt svona fyrstu mínútur vinnudagsins en þegar dagurinn er liðinn og skúffan er enn á borðinu er þetta orðið doldið þreytt. Ég hef ákveðið að svona daga ætli ég í framtíðinni að lýsa mig óvinnufæran vegna dispraxiu, athyglisbrests og skömmustuóþols auk þess sem ég hafi skyndilega komist að því að ég sé sennilegast örvhentur og gott ef ég er ekki andsetinn líka.



|

Saturday, January 08, 2005

Vaknað,verslað,undið og syrgt

6 .janúar. Vaknaði kl. 7:20, rauk að kaffikönnunni og hellti upp á kaffi sem hefði hæglega brennt gat á varnarbrynju kjarnorkukafbáts, hlunkaði mér niður í sófann og saug að mér dauðhreinsuðu lofti gegn um filter. Aðrir meðlimir heimilisins voru langt komnir í morgunverkunum og áttu aðeins eftir nokkrar teygjuæfingar áður en verkefni dagsins yrðu leyst af hendi með bros á vör. Ég fékk mér annan kaffibolla og tautaði geðsýkislega ofan í hálsmálið ”á morgun það kemur annar strætó á morgun".


7. janúar. Vaknaði kl. 7:00 og hafði verið svo heiftarlega snjall að stilla tímastillinn á kaffikönnunni. Áður en ég klæddi mig fór ég út á svalir og velti mér í snjónum, en það hafði frekar vafasamur náungi á Hlemmi sagt mér að væri allra meina bót, ekkert væri meira hressandi nema kannski ein Ákavíti með matnum. Þetta rosa fína trix gerði það að verkum að ég missti af 3 strætisvögnum, mætti í vinnuna kalinn og kvalinn.


8 janúar.Andlega undir það búin að sofa út var ég vakinn við englaraddir dætra minna syngjandi um Ólaf Liljurós. Panikið sem ég fékk meðan ég var að ná fókus var gríðarlegt, þar sem ég skráði mig í Ásatrúarfélagið fyrir skömmu áleit minn gríðarlega morgunhressi heili að ég væri látinn og kominn til heljar. Eftir að hafa tekið á mér púlsinn, mælt hitastig mitt og reynt að hlusta með jákvæðu hugafari á 100% nylon sannfærðist ég þó um hnattstöðu mína og lífsmark. Áætlanir mínar um notalegheit og almenna svefnsýki á heimilinu urðu fljótlega að engu er tilkynnt var úr hátalakerfi hússtýrunnar að næsti áfangastaður væri vagga íslenskrar menningar, Smáralind. Fagur litur húðar minnar fór úr fölu í trabantsgrænt, en við því var ekkert að gera því Bryndísi Bjarnadóttur, frumburði mínum bráðvantaði úlpu og var Smáralindin talin skotheldur staður til að nálgast þá nauðsynjavöru. Þegar komið var í Smáralind vandaðist málið, því að úlpa mun ekki vera það sama og úlpa. Í nútímasamfélagi ungra telpna telst úlpa ekki halda vatni né vindum hvað þá mínus tölum á celsiuskvarða nema svört sé og stutt með veglegu stroffi. Eftir gríðarlega leit að slíkum gæðagrip í allflestum verslunum musterissins fannst ákjósanleg málamiðlun í Hagkaupum (þar sem er víst skemmtilegast að versla) og út var gengið með marga poka troðna af nauðsynjavörum. Marga jú því að karlmennið á heimilinu og einn helsti hatursmaður fataverslanna á landinu fékk hreinlega kaupæði þegar hann sá allar þessar hræbillegu gæðavörur á janúarútsölunum og er hann nú í banni frá verslunarferðum þar til að lífsmark að ráði fer að finnast á bankareikning hans. Sigrún keypti líka handa mér hermannaklossa allgæðalega úr þykku og fallegu leðri sem fengju hverja belju til að öðlast takmark í lífinu.


Þegar heim var komið og búið að gæða sér á vínarbrauðum og risakleinum bökuðum af sjarmatröllsbakaranum Jóa Fel. tók alvara lífsins við. Þannig er mál með vexti að þvottaæði greip um sig á heimilinu, mikið var þvegið og vel og lenti gsm síminn minn á geysilega intresant prógrammi í þvottavélinni. Ekki ætla ég að mæla sérstaklega með þessari aðferð við að hreinsa síma en þó verður að segjast að hann leit alveg hreint æðislega út. Ákveðið var að reyna að þurrka hann með sokkunum á aktífasta og besta ofni Breiðholtsins sem vill svo heppilega til að er í eldhúsinu hjá okkur og var nú kominn tími til að reyna þvottheldni hans. Það heirðist lágt hviss þegar reynt var að kveikja á honum, skráður dánartími er 18:13. Blóm eru afþökkuð en nýr sími væri vel þeginn helst þvottekta.

|

Wednesday, January 05, 2005

Hjálparkall undan sænginni

Mikið hrikalega er leiðin úr rúminu niður á tvo jafnfljóta þungfær þessa dagana. Meðan að aðrir meðlimir heimilissins spretta upp eins og stálfjaðrir og hefja daginn á kröftugum tannhreinsunum, flóknum hárgreiðslum og staðgóðum morgunverði, jafnvel algjörlega koffín og nikótínlausir, liggur karlmennið á heimilinu (þar sem ég er eini karlkyns einstaklingurinn á heimikinu fellur það í minn hlut) óvenju fölur og með eindæmum úrillur bölvandi sólinni fyrir óvenjuhraðan gang sinn.Eftir tvo bolla af kaffi byrjar svo að rofa til og er þá venjulega gerð sú stórmerkilega uppgvötun að sennilegast sé ég orðin oggulítið of seinn af stað, þá er lítið annað að gera en að rjúka út, missa af strætó og koma aftur heim og ná tveim kaffi í viðbót þar til að rútínan byrjar aftur.



Sem betur fer skánar nú venjulega dagurinn eftir að komist hefur verið til vinnu og búið að smakka aðeins á kaffinu þar.


En af hverju er nú Bjarni Magnússon með þetta þunglyndisvæl fyrir alþjóð?
Jú þannig er mál með vexti að ég hef rifið lokk úr hala mínum og lagt svo á og mælt um að ég verði sá morgunhressasti austan Breiðholtsbrautar nema þá fyrir utan Árna Johnsen sem ku vera ofvirkur allsvakalega og eiga heimili í póstnúmerinu.

Hugsast getur að haldin verði dagbók um þetta átak mitt hér á síðunni,og eru allar ábendingar um leiðir til morgunhressleika afskaplega vel þegnar auk þess sem það væri afskaplega hressandi að fá nokkrar klappstýrur til að peppa mann upp á morgnana.

Með kærri kveðju.Hinn föli faðir


|

Sunday, January 02, 2005

Hugsanlegt matar og baðboð

Hátíð ljóss og friðar liðin og við tekur hið geysihraða og innihaldsríka líf hversdagsins. Hinn föli faðir er nú reyndar stórskemmdur eftir gríðarmiklar magaútvíkkanir sem nú kalla á sífellt nart í allskonar óhollustu, og er nú talið til stórkostlegra afreka að komast hjálparlaust úr liggjandi stöðu í hina geysierfiðu stellingu, að sitja uppréttur. Á þetta ástand fannst mér vart bætandi þar sem ég lá vorkenndi mér fyrir að hafa lent í þessu jólastandi þegar að frúin á heimilinu og heimasætan (báðar svakasætar og með öllu ófölar) stormuðu inn í eldhús og tóku til við kókoskúluframleiðslu sem hefði fengið hvern bakara til að fá dollaramerki í augun. Við þetta skánaði heilsan um stund og var að sjálfsögðu genginn gæsagangur þá löngu leið er liggur á milli rúms og eldhúsborðs í þeim tilgangi að ráðast til atlögu við þessar bévítans kúlur. Eftir að hafa sporðrennt allt of mörgum var skriðið inn í rúm aftur og tekið til við fyrri iðju.


Það er einungis á færi bestu dulspekinga að sjá að mér verði fært að vinna næsta mánuðinn, því að ég held að ég hljóti að þurfa mikla og stífa þjálfun eftir þetta annars yndislega jólahald. En kanski verð ég búin að jafna mig fyrir páska svo að ég geti tekið gleði mína á ný og kýlt vömbina hressilega meðan ég minnist þjáninga krists. Kanski að ég haldi matarboð og reyni að herma eftir seinustu kvöldmáltíðinni, eftir mat geta svo allir þvegið á mér fæturnar.Eru ekki allir til í það?



Að lokum vil ég þakka fyrir mig,fyrir allt sem mér hefur verið hjálpað við og fyrir mig hefur verið gert á liðnu ári.Það er ómetanlegt að eiga góða að og margir hafa komið mér til hjálpar,bæði fjölskylda og vinir þó að það hafi verið vandséð á stundum að ég ætti það skilið. Ég held að nýkomið ár verði gott fyrir mig, og verður ykkur seint þakkaður ykkar þáttur í því nægilega.







|