http://www.makepovertyhistory.org

Saturday, February 26, 2005

Heima er best (ef maður á heima)

Þegar maður flytur er það góð regla að byrja að pakka nokkrum vikum áður en að flutningsdegi kemur. Að losa sig við allt drasl og vera búin að redda mannskap í verkið, sendibíl og 10 lítrum af kaffi. Ég ætti að vera farinn að vita þetta, er jú að flytja í þriðja skiptið á einu ári eða síðan í Maí 2004 og í 10 skipti á seinustu 7 árum. En alltaf kemur það mér jafn mikið á óvart að ég sé að fara að flytja, Það hellist venjulega yfir mig svona þrem dögum áður. Ligg kannski upp í sófa voða afslappaður pælandi í að það væri mikið betra að hafa vegginn fyrir aftan sjónvarpið bleikann með grænum doppum (eða öfugt) þá kemur það allt í einu. Aaaaarrrrrrgggggghhhhhh
ég er að fara að flytja á sunnudag. Gríp símann og spái í smá stund í að hringja í leigusalann minn og segja henni að því miður hafi ég greinst með fuglaflensu og hafi verið setur í sóttkví í þrjá mánuði og geti því hreinlega ekki afhent íbúðina bara út af hagsmunum þjóðarinnar. En hún myndi ábyggilega biðja um vottorð eða hringja í fréttaskotið hjá DV og ég myndi sitja í ískaldri súpunni án kútanna minna eða korksins. Svo ég hringi í móður mína í staðinn. Það hefur nefnilega ekki gengið sem best að finna nægilega vel að finna viðunnandi hýbíli fyrir okkur, eða kanski frekar þokkalega geðgóðan og áreiðanlegan leigusala. Er voða kurteis í símann, hrósa mömmu fyrir hvað hún sé ungleg og hnittin, réttsýn og örlát, að það sé hreinlega umtalað hvurslags glæsikvendi hún sé. Og svo sé hún líka svo rík af húsnæði. Að hún eigi alveg 8 fermetra herbergi sem mætti nú alveg nýta betur. Heyri að áhugi mömmu kviknar, þetta herbergi hefur nefnilega verið afskaplega viðkvæmt mál í gegn um árin, hefur staðið hálffullt af drasli sem bíður sorpuferða og þess að vera sótt (aðallega af mér þó). Eftir að hafa hlustað á mömmu segja frá draumum sínum um að hafa tölvuborð og gestarúm, jafnvel bókahillu og góðan lesstól inn í þessu herbergi kemst ég loksins að. En mamma mín segi ég, það er hægt að nýta þetta herbergi svo miklu betur. Til dæmis undir þriggja manna fjölskyldu. Og áður en að hún nær að grípa fram í segi ég henni hvað þessi fjölskylda sé afskaplega fyrirferðalítil, þrifaleg, hljóðlát og þægileg í alla staði, að hún muni varla vita af henni þarna á neðri hæðinni. Bjarni, segir ísköld rödd hinummegin á línunni, ertu að reyna að lýsa fjölskyldunni þinni? Já það mun vera svo frú hvísla ég svo lágt að varla heyrist, og uppsker langa ræðu um hvurslags sóði ég hafi verið sem unglingur og alltaf hlustandi á þetta helvítis garg svo hátt að rúður í næstu götum nötruðu í takt við nágranna okkar. En eftir að hún er búin að skamma mig segir hún mér að auðvitað séu Hekla litla og Sigrún velkomnar og páfagaukurinn líka, og ég verði sennilegast að fá að fylgja með þó að það fylgi því nú nokkur loforð umumgengni. Þá er aðalvandinn samt eftir. Að tilkynna frúnni að ég hafi fundið húsnæði handa okkur. Á rólegum og góðum stað í hverfinu, nálægt skólanum og vinnunni hennar. Stutt í bakarí, sjoppu og búð, góður skjólgóður garður og einstaklega vinalegir nágrannar. Heima hjá tengdaforeldrum hennar. Dreif mig svo strax út í búð að sækja kassa. Keypti blómvönd í leiðinni og tók mér góðan tíma í að velja kassa með glaðlegum og litríkum myndum. Þegar ég kom heim sat hún enn á stólnum, sama sígarettan löngu orðin aska milli fingrana á henni. Augun fjarlæg og húðin föl. Ég rak blómvöndinn upp að nefinu á henni tók í hendina á henni og leiddi hana inn í rúm. Ég held að hún sé að jafna sig á þessu núna allavega er hún farin að reka mig áfram með harðri hendi í pökkuninni. Jæja við flytjum allavega á morgun, fyrst þurfum við reyndar að klára að pakka, redda okkur mannskap og farskjóta, fara í eina skírn og sækja Heklu úr pössun en ég er nú samt bjartsýnn á þetta. Get verið algjör meistari í Pollyönuleik þegar ég vil það. Þetta verður jú allt búið á mánudag.


Þangað til að við finnum okkur íbúð
|

Monday, February 21, 2005

Bardagin við aukaorkuna

Langþráð heimkoma eftir óvenjustrembinn mánudag. Ég gekk glaður í fasi að hurðinni, tilbúin með lyklana rykkti henni upp og öskraði af sælu þegar að fyrsti sentimeterinn af skónum mínum fór yfir þröskuldinn. Ég sveiflaði hurðinni aftur, bauð góðan dag og sperrti eyrun í von um að heyra fjölskyldumeðlimina hlaupa í áttina að mér til að faðma mig, klæða mig úr skónum og gefa mér rjúkandi heitt og nýtt kaffi. Dóttir mín staulaðist á móti mér ekki valhoppandi og glöð eins og ég hafði búist við heldur þreytuleg og döpur.
Hekla: Pabbi, ég vil ekki svelta.
Sá föli:HA? Nei af hverju ættir þú að vilja það?
Hekla:Pabbi það er bara ekkert til að borða! Ég meina ekkert, núll allt búið eins og í páskaeggjaverksmiðju eftir páska. Þú verður að gera eitthvað í þessu. Ekki viltu svelta mig í hel er það nokkuð?
Sá föli: Nei auðvitað ekki en fórum við ekki að versla um helgina?
Hekla.Þú heldur þó ekki að þetta smotterí sem þú verslaðir dugi endalaust, ég er að stækka sko, meira að segja farin að nota skó nr. 34, verð 8 ára á árinu.
Ég sá að það þýddi ekkert að fara að gramsa í ísskápnum eða týna fram eitthvað úr skúffunum.Það var aðeins ein leið fær, leiðin út í búð. Kaskó er ágætis verslun, lágt verð og ágætis pokar, en þetta rússneska þema þeirra fer nú að verða dulítið þreytt. Kaskó hefur nefnilega þá sérstöðu að hafa nægt hillupláss en engin bílastæði. Þetta með bílastæðin truflar mig svosem ekki mikið en ég myndi nú vilja hafa meira í hillunum. En kanski er þetta bara gott mál maður prófar allskonar nýja rétti eins og hamborgara í orlydeigi og kjötbollur í pulsubrauði að ógleymdum uppáhaldsmat okkar Vesturberginga. Svissaða brúna banana með súrsætri sósu og rabbabaragraut.

Eftir að hafa mettað maga minn og heimasætunnar lá leið mín upp í sófa þar sem ætlunin var að segja frá hörmungum dagsins. Frá bognum nöglum, brotnum borum, bitlausum sagarblöðum og óþekkum spítum. Frá fúllyndum fasískum strætóbílstjórum, frá fiskifýlunni í fjarkanum, lapþunnu kaffinu á Hlemmi, frá helvítis jeppanum sem gusaði yfir mig hálfu norður Íshafinu án þess svo mikið sem að hægja á sér. Að lokum ætlaði ég að lauma því að svona án þess að mikið á bæri að bakið á mér hreinlega hrópaði á að vera nuddað af einhverjum mjög nákomnum mér. Ég gat sat frá bognu nöglunum en þar var ég stoppaður. Usssssssssssssssssssssssss fyrsti Survivor! Sumir fara í messur, aðrir stunda íhugun, hin föla frú horfir á Survivor. Að mæla meðan á messunni stendur er að fremja helgispjöll og þá á maður á hættu að verða tekinn fyrir af hinni fölu rannsóknarnefnd. Það er ekkert sem maður leikur sér að. Annars er raunveruleikasjónvarp eitthvað sem ég hef engan skilning á. Hvaða raunveruleika er verið að tala um? Ef það er raunveruleiki lífsins að sitja fastur á eyðiey með helling af öðru fólki og sjónvarpstökuliði eða að keppa um að verða næsta súpermódel Amríku eða kannski að velja sér eiginkonu úr 20 stúlkna hópi á 5 dögum hlýt ég að lifa einstaklega óraunverulegu lífi. Það væri nær að gera þætti um mig þá. En þessi raunveruleikasjónvarpspirringur er nú alveg efni í annað blogg.
|

Thursday, February 17, 2005

Ál eða álf?

Andinn virðist ekki vera á sveimi um Vesturberg 78. Allavega hefur hann ekki verið að steypa sér mikið yfir mig undanfarna daga. Ég settist niður áðan og byrjaði að skrifa afskaplega langan pistil um trúleysi mitt, en komst að því að hann var svo leiðinlegur að ég nennti ekki einu sinni að lesa yfir hann sjálfur auk þess sem hann endaði á því að ég var farinn að lofsyngja Biblíuna og messuhald. Og síðan hef ég hef ákveðið að verða trúaður maður. Ég ætla að trúa á huldufólk.Verða svona súperklikk einstaklingur sem biður um leyfi áður en hann sest á steina og skilur hurðina eftir opna á gamlárskvöld. Kanski hætti ég að vinna og fer að ferðast um landið og hlekkja mig við stórvirkar vinnuvélar til að bjarga álfabyggðum, sprengja upp spennistöðar og brenna rafmagnstaura vegna þess að álfum sé illa við ljósaperur og þungarokk. Síðan gæti ég hnakkrifist opinberlega við formann tröllavinafélagsins um yfirgang tröllanna og frekju, mætt með borða á Alþingi sem á stæði "álf ekki ál". Kannski verð ég bara ofsatrúarmaður þó að þeir hafi nú ekki verið efst á vinsældarlistanum hjá mér í gegn um tíðina. Jæja ég ætla að fara að lúlla og athuga hvort að það komi ekki álfadís til mín í draumum mínum og gefi mér fyrirmæli. góða nótt.
|

Tuesday, February 15, 2005

Mánudagur til merkilegheita

Af hverju eru mánudagar til mæðu? Af hverju ekki mikilmennsku eða magadans, morgunverka eða marsipansáts? Einhverra hluta vegna eru mánudagar mér undantekningalaust til mæðu. Ég vakna alltaf of seint, missi af strætó, kem í vinnuna og kemst að því að það er kaffilaust og að ég er búin að gleyma öllu sem ég var að gera fyrir helgi. Allir sitja þegjandi og mæðulegir í kaffi og matartímunum nema þeir sem sjá ástæðu til að skæla yfir einhverju sem þeir gerðu á djamminu. Og svona eins og til að blessa andlegt ástand mitt og vinnufélaga minna hangir vinnuklukkan allt of hátt upp á vegg og vandar sig við að ganga mjög hægt, eins konar táknræn landamæri milli lífs og dauða. Ég hef stundum reynt að kasta spítukubbum og öðru drasli í þessa klukku svo lítið bæri á en það er eins og hún hafi einhvern djöfullegan verndarhjúp um sig þannig að það er alveg sama hvað ég grýti, aldrei sést svo mikið sem rispa á henni. Einu sinni reyndi ég að setja tvö batterí í hana í staðinn fyrir eitt. Vandaði mig mikið við að samtengja þetta allt saman , eyddi öllum matartímanum í þetta allt í þeirri von að hún myndi ganga á tvöföldum hraða. Dreif mig í að príla með hana upp og hengja hana aftur á naglann áður en forstjórinn minn kæmi úr mat, hálfdrap mig á leiðinni niður og steig á nagla. Klukkan gekk ekkert hraðar ef eitthvað var gekk hún heldur hægar.

Á sumrin er líka alltaf gott veður á mánudögum. Um helgar er oft svoleiðis snarklikkað veður, tjaldstæði verða að aurarpyttum og hjólhýsi fjúka. Sumarbústaðir verða að einangrunarklefum sökum veðráttu og fólk sem gistir í bændagistingu hálfklikkast, fer að ganga um í gúmmíbomsum með sjal og farið að taka í nefið. Síðan kemur mánudagur og BÚMM hvert hitametið af öðru fellur. En þá neyðist maður til að hanga hinum megin við landamærin, undir klukkunni glápandi út um gluggann slefandi úr öfund út í alla útivinnutöffarana.

Hvernig væri nú að þjóðin myndi breita mánudögum í daga hinnar stóísku róar? Reykvíkingar gætu til dæmis komið saman í Vonarstræti og stundað íhugun, fleytt kertum á tjörninni og hent úrum sínum í Ingólfsbrunn.Ég er viss um að andlegt jafnvægi þjóðarinnar myndi snarbatna við þetta.
|

Friday, February 11, 2005

Dr. Fölur góðan dag, get ég aðstoðað?

Hinn föli faðir hefur oft fengið vinnu sína borgaða í undarlegum hlutum og hefur yfirleitt haft töluvert gagn og gaman af. T.d hef ég fengið ómælt magn af áfengi, kertastjaka, páskaegg og ostakörfur. En í dag fékk ég þá alundarlegustu launagreiðslu sem ég hef nokkurn tímann heyrt um. Inn á verkstæði kom gamall rokkhundur sem var að bögglast með að gera við gamlan og afskaplega fallegan bassa. Sem mikill áhugamaður um rokk og ról, gamla rokkara og falleg hljóðfæri og einnig sem gamall skáti var ég að sjálfsögðu reiðubúinn að aðstoða manninn eins og ég gat. Þegar að því kom að ég var á heimleið kom hann að tali við mig og bað mig með silkimjúkri viskíröddinni að aðstoða sig við að koma smotteríi í lím áður en ég færi. Minnugur skátaheitissins gekk ég greiðlega til verks og hrærði lím, dró fram þvingur og límdi gripinn. Rokkhundurinn var í skýjunum. Það var eins og ég hefði verið að kynna hann fyrir Stones og Bítlunum eða ég hefði sagt honum að ég ætti áður óútgefnar upptökur með Hendrix. Þegar ég er að hnýta á mig trefilinn kemur hann aftur til mín, flóttalegur eins og Austin mini á formúlubraut, hnippir í mig og segir "ég ætla að gefa þér doldið efni þú getur notað það eða selt það eða eitthvað" og rétti mér lítið spjald "hérna stingdu þessi í vasann, en taktu samt ekki nema hálfa til að byrja með". Ég algjörlega panikkaði, tróð spjaldinu eins langt ofan í vasann og ég gat áður en einhver sæi mig meðhöndla pillur með þessum manni. Síðan hvíslaði hann í eyra mér eins og hann væri að segja mér hvar fjársjóðir þriðja ríkissins væru faldir, "þetta er Viagra, góða skemmtun". Þannig að ef einhver er í vandræðum með þessi mál þá á hinn föli faðir lausnina, ekki vera feiminn ég er þagmælskan uppmáluð þegar kemur að einkamálum annara. Annars væri helvíti gott að geta bara fengið útborgað í peningum.
|

Á einhver þessa plötu???

Hinn föli faðir er óvenjukátur, ég nefnilega var svo stórkostlega lukkulegur að finna eftir 14 ára leit hljóðupptökuna WRONG með pönköldungunum í NOMEANSNO.



Þvílík snilld, sé ekki fram á að verða viðræðuhæfur næstu aldirnar. Þetta verður hreinlega að fá að þreyta hljóðhimnuna næstu 200 árin eða svo. Þá er bara næst á dagskrá að gera dauðaleit að Dog faced hermans plötunni Hum of live sem er hinn eigulegasti gripur líka
|

Saturday, February 05, 2005

Sjúkur ástarþríhyrningur

Eitthvað hefur misfarist í uppeldi hins opinbera á mér. Allavega er ég afskaplega fælinn á allar opinberar stofnanir, byrja að skjálfa þegar ég hugsa um eyðublöð og biðraðir, jakkafataklædda menn með skjalatöskur og nefmæltar afgreiðsludömur. Einn jakkafatamaðurinn veldur sérstakri skelfingu hjá mér, maður þessi hefur einstakt lag á því að vera uppáþrengjandi. Hann hefur t.d. ákveðið að ég sé ákjósanlegur bréfavinur og sendir mér löng og leiðinleg bréf algjörlega gerilsneidd allri innlifun eða húmor. Hann heitir Tollstjórinn í Reykjavík og er afskaplega uppáþrengjandi karakter, sendir mér í gríð og erg bréf þar sem hann reynir að kenna mér stærðfræði sem ég er löngu búin að læra. Hann er víst í sambúð þessi tollstjóri með manni sem heitir Skattstjórinn í Reykjavík og er næstskelfilegasti maður sem ég veit. Fullkomið par. Skattstjóranum langar líka að vera bréfavinur minn. Ótrúlegt en satt. Hans bréfaskriftir eru samt á persónulegri nótum en yfirleitt alltaf eins. Hvar vinnur þú, hvað þénar þú, hvað áttu mörg börn og hverjar eru kennitölur þeirra, ertu í sambúð? með hverri(hverjum) og hver er kennitala þess aðila? Að sjálfsögðu svara ég ekki svona spurningum þegar einhverjir kallar út í bæ senda þær bréflega, kallar sem ég þekki bara ekki neitt. Ég hef skrifað þeim og beðið þá um að láta mig vera, bent þeim á að mitt einkalíf komi þeim ekkert við og að þeir verði að reyna að finna sér aðrar leiðir í vinaleitinni. Bréf þar sem spurt er um hjúskaparstöðu og reynt að kenna stærðfræði geta komið illa við sumt fólk og þeir gætu átt von á kæru ef þeir hætta þessu ekki. Þeir létu mig í friði eftir þetta í doldinn tíma. En þá barst mér annað bréf. Þeir virðast vera þessi tollsjóri og skattstjóri í einhverjum mjög svo annarlegum ástarþríhyrning með manni sem kallar sig Sýslumanninn í Reykjavík og deilir hann þessum sjúka áhuga á mér með þeim og byrjaði að senda mér mjög ögrandi bréf þar sem hann vildi hreinlega eiga við mig stefnumót. Já ég segi það satt. Ég átti að hitta hann í vinnunni hjá honum. Ég er að hugsa um að reyna að fá nálgunarbann á þessa sjúku menn. Er búin að fara og skrúfa niður póstkassann og skipta honum út fyrir pappírstætara. Þorði ekki annað en að fá leyninúmer á símann og er að hugsa um að færa lögheimili mitt út í einhverja eyju á Breiðafirði. Rosalegt að lenda í svona klikkuðum köllum.
|

Tuesday, February 01, 2005

Af hverju ekki Stjána stuð?

Ég veit ekki hvort ég á að vera óendanlega kátur eða hryggur. Hluti af mér vill valhoppa um, baka pönnukökustæður og syngja hátt og falskt meðan að hinn hlutann af mér langar helst til að gerast þunglyndur landflóttamaður. Það hefur gerst. Það sem allir Íslendingar hafa látið sér detta í hug en enginn hefur óskað sér í raun og veru. Guðni Ágústson er forsætisráðherra. Reyndar bara í viku en hann er samt forsætisráðherra. Ætli Stjáni stuð hafi verið of upptekinn? Þetta sýnir nú samt hvað Íslendingar eru í raun og veru gott fólk. Eftir að hafa leyft Guðna að vera í töluverðan tíma í landbúnaðarráðuneytinu (þar sem er ekki með neinu móti hægt að klúðra neinu það er allt í klessu hvort sem er og með öllu óheimilt að laga það) leyfum við honum að vera forsætisráðherra. Og kannski er það sorglega við þetta að hann getur varla klúðrað neinu þar heldur. Hvernig ætli að Guðni hefði tekið á öryrkjamálinu, fjölmiðlafrumvarpinu eða kennaraverkfallinu? Kannski hefði hann bara sagt öryrkjum að íslenska kindin væri nægjusöm og falleg skepna, fjölmiðlum að hver sé ber að baki nema bróður eigi og kennurum að góður bóndi sinni fé sínu af natni. Kannski er bara framtíð í þessu, kannski ættum við bara að hafa Halldór úti í löndum, Davíð hlýtur að hafa lánað honum einhverjar ferðabækur. Og ef allt fer í klessu og þjóðin verður ósátt þá getur Guðni alltaf farið og kysst belju, þá verða allir kátir aftur.
|