http://www.makepovertyhistory.org

Monday, June 27, 2005

Sem betur fer er ég frekar heill á geði.

Þetta hef ég sagt sjálfum mér á hverjum morgni í mörg ár og oft á tíðum verið ansi nærri því að trúa þessu. Í seinustu viku settist svo efasemdaálfurinn á öxlina á mér og byrjaði að jóðla í eyrað á mér. Hvað er það nákvæmlega sem gerir mig svona normal? Þar sem ég er afskaplega sérhlífinn maður að eðlisfari ákvað ég að fara bakdyramegin að þessari naflaskoðun minni. Ég byrjaði á að skoða aðra og lagði því í geysimikla og afar nákvæma atferliskönnun á meðborgurum mínum. Bjó til eyðublað sem ég fyllti samviskusamlega út í hvert sinn sem ég var á meðal fólks t.d. í strætó, á rölti mínu um bæinn, í vinnunni og út í búð. Niðurstöður rannsóknarinnar verða sennilegast aldrei á forsíðum mann eða sálfræðitímarita en þær dugðu mér ágætlega. Ég komst að því að líkur sækir líkan heim. Plebbarnir halda saman, rónarnir halda saman, ofurgellurnar og stælgæjarnir halda hópinn, þroskaheftir, háskólalærðir, íþróttaidjotarnir, menningarsnobbararnir, allir þessir hópar og fleiri til kjósa sér frekar félagsskapar fólks sem líkist þeim að einhverju leiti. Eftir að hafa komist að þessari niðurstöðu tók ég til við að skoða mína nánustu í gegn um augu fræðimannsins . Þar sem einhver einkenni skapgerðar minnar eða geðveilu geta hafa borist til dætra minna hef ég ákveðið að undanskilja þær tvær frá þessari stúdíu. Ég ákvað að byrja á foreldrum mínum.

Móðir mín. Kona á sjötugaldri með litað dökkt hár, alvarlega haldin af óhreinindaóþoli og getur með engu móti komist gegn um daginn án þess að rykmoppa a.m.k. tvisvar sinnum og vaska upp áður en hún fer í vinnuna. Mjög listhneigð og gefandi.

Helstu karaktereinkenni. Getur auðveldlega gert úlfaldahjörð úr svo litlu sem bliki í augum mýflugupabba. Alvarlega ofvirkur einstaklingur


Faðir minn. Sextugur maður, mikill á velli með (að eigin sögn) feiknagóða bassarödd. Á það til að festast í eigin draumaheimi þegar kemur að bókmenntum eða tónlist og vill þá gjarnan að allir sem hann hittir deili áhuganum með honum. Mikill hugmyndasmiður og úrræðagóður trésmiður sem veigrar sér ekki við að nota kústsköft í skartgripaskrín og pallettur í sólpalla.

Helstu karaktereinkenni. Einstök góðmennska. Á það til að vitna í Hringadrottinssögu við undarlegustu tækifæri td. þegar hann er alveg í spreng á leiðinni á klósettið eða þegar blásið er á kertin í barnaafmæli.


Hin föla frú. Kona langt komin á þrítugaldur, gengur með vellyktandi í handtösku sinni og hefur verið með lit í hári frá því í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur. Öll frekari ummæli um þennan einstakling gætu verið mér afskaplega hættuleg

Helstu karektereinkenni. Geislandi gleði, útsjónasemi, skynsemi og einstök fegurð.


Æskuvinur minn Jens pétur. Afar undarlegt eintak af homo sapien. Getur td. með engu móti ákveðið hvort honum langi að læra til fasteignasala eða járnsmiðs. Menntaðasti blöðruprentari á landinu, með 40 stunda sjálfmenntun á hálfsjálfvirka blöðruprentvél að baki.

Helstu karaktereinkenni. Þetta telst varla eðlilegt

Þessi listi gæti verið mikið lengri en þess gerist varla þörf úr þessu.
Ég hef nefnilega ákveðið að skera efasemdaálfin á háls.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home