http://www.makepovertyhistory.org

Saturday, March 26, 2005

Ég vil ekki vera naglfastur

Það er ein mínúta í að föstudagurinn langi sé liðinn þegar ég skrifa þetta. Lyklaborðið er gegnblautt af tárum mínum og ekkasogin í mér hljóma eins og í sjóveikri fílahjörð í kafbát. Ég er samt ekki trúaður maður, en ég hef ómælda meðaumkvun með þessum kollega mínum úr trésmíðinni sem vegna bágra launakjara hraktist úr starfi og fór að ganga um hálfnakinn og tautandi. Þessi maður endaði svo lífið við aðstæður sem alla trésmiði dreymir ægilegar martraðir um. Hann var negldur á spítu sem hann var sjálfur látinn bera á tilætlaðan framkvæmdastað. Já aumingja Jesú. Með fjórum nöglum varð hann naglföst eign mannkynsins.Þrátt fyrir algjört trúleysi mitt finnst mér hann Jesú fallegur maður með fallegar hugsjónir. Verst með þessar ranghugmyndir hans um föður sinn, meintan skapara alls, þann sem kallar sig því undarlega nafni Guð.

Ég er nefnilega dolítill sökker fyrir frelsaranum t.d. safna ég af honum myndum. Jesú með börnunum, Jesú með lærisveinunum, Jesú með lömbunum eða að halda fjallræðuna eru myndefni mér að skapi. Allt nema Jesú á krossinum með níu tommu naglana í gegnum hendur og fætur. Ég held að ég eigi ekki einn einasta kross með honum á eða mynd. Sennilegast minnir það mig of mikið á að ég er strandaglópur í þessu fagi mínu án alls áhuga míns á því og að ég hef ekki hugmynd um hvað í ósköpunum ég á að gera ef ég hætti að smíða. Af hverju í ósköpunum gátu þeir ekki brennt hann á báli eða grýtt hann til dauða? Þá væri ég kannski frelsaður maður í dag og farinn að læra geimréttarhagfræði.
|

Monday, March 14, 2005

Ellin spyr ekki um aldur

Ég hef elst um 20 ár síðan í seinustu viku. Hárið á mér er farið að grána, litlir hárbrúskar farnir að gægjast út úr eyrunum á mér og augnabrúnirnar orðnar samvaxnar. Mér fannst ég vera ungur maður sem ætti allt lífið eftir en það breyttist hraðar en ég hefði nokkurn tímann trúað. Ástæðan fyrir þessari skyndilegu elli minni er lítið barn. Dóttir elstu systur minnar varð mamma í seinustu viku, mamma mín varð langamma, systir mín varð amma og ég. Ég varð ömmubróðir. Maður á ekki að verða ömmubróðir fyrir þrítugt, það er svona eins og að fá áhuga á ættfræði í tíunda bekk. Þetta var líka mjög svo ónotaleg áminning um að barnsmóðir eldri dóttir minnar varð vanfær þegar hún var aðeins fjórtán ára. Ef eldri dóttir mín myndi feta í fótspor móður sinnar yrði ég afi eftir þrjú ár. Ég ætla bara rétt að vona að ég verði búin að finna mér íbúð þá. Það væri frekar ömurlegt að verða afi og búa heima hjá mömmu og pabba. Afar eiga að eiga sitt eigið hús, bíl og tuttugu ára sjómennsku að baki, vera með myndarlegan skeggvöxt og helst laglega ístru. Og almáttugur ég er að fara að ferma eftir tvö ár, það virðist kannski ekki stórvægilegt við hliðina á hinu öllu en fermingin er óumflýjanleg. Kanski verð ég ekki afi fyrir eftir tuttugu ár. Hinn föli faðir er ómannblendinn allrosalega, að hitta fjórar manneskjur í einu getur verið hreinasta kvalræði. Að þurfa að halda fermingarveislu er eins og að bryðja glerbrot inn í örbylgjuofni með bilaðri hurð. Ekkert hægt að stinga af eftir að hafa borðað á sig gat eða skrópa í kirkjunni.

Svo virðist sem að mjög svo ótímabær öldrun mín sé með öllu óumflýjanleg. Mér hefur reyndar dottið í hug að hægt væri að frysta börnin mín í kannski svona fimm til tíu ár en sennilegast er það ómannúðlegt. Mér hefur líka dottið í hug að láta klukkurnar mínar ganga á fjórföldum hraða en strætóferðir eru ekki nógu tíðar til að það gangi. Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin sem sé fær fyrir mig sé að taka ellinni fagnandi. Mjög fagnandi. Lita hárið á mér grátt, fara að reykja pípu, lesa ekkert nema ævisögur og lífsreynslusögur, fara að ganga í mokkasíum með staf og helst temja mér að smjatta og sötra af krafti. Síðan þarf ég auðvitað að fara til læknissins og útskýra fyrir honum að ég hreinlega verði að fá Viagra hjá honum, ég eigi svo unga konu.
|

Wednesday, March 09, 2005

Rokkstjörnuheilkenni og rasismi strætóstjóra

Strætóstjórar eru undarleg stétt. Þeir eru míní súperstjörnur hvunndagsins. Menn sem alltaf er beðið eftir, ef þeir skreppa í kaffi er beðið eftir þeim þegar þeir koma aftur, ef þeir lenda á rauðu ljósi er beðið eftir þeim á næstu stoppistöð og ef þeir sjást ganga að bílnum sínum er undantekningalaust hópur af fólki á eftir þeim. Síðan eru það strætóstjóragrúppíurnar, sem hanga alltaf fermst í vagninum og daðra við vagnstjórann,svo stórglæsilegan með speglasólgleraugun og í einkennisbúningnum sínum með látúnshnöppunum og spælunum. En sumir strætóstjórar höndla ekki búninginn og breitast í yfirvald. Þennan leiðindar aukakvilla einkennisbúninga þekkjum við líka frá td. öryggisvörðum, stöðumælavörðum, já og auðvitað skátum. Hjá margumræddum strætóstjórum brýst þetta út á afar hvimleiðan hátt. Fólk er skilið eftir í 20 stiga frosti og hagléli vegna þess að græna kortið rann út fyrir 7 tímum eða þeim vanti 20 kr. upp á fargjaldið, sumum er hent út fyrir þann hræðilega glæp að súpa á svaladrykk í vagninum tala nú ekki um ef viðkomandi sýnir svo svívirðilegan brotavilja að narta í banana. Þessir menn eru líka rétthærri í umferðinni en annað fólk, kannski doldið lógískt en samt ekki raunveruleikinn. Mér finnst að bílstjórar sem eru í vinnu fyrir almenning eigi að vera til fyrirmyndar í umferðinni. Ég hef til dæmis aldrei séð strætó stoppa fyrir gangandi vegfarendum. Aldrei. Hvort sem það hefur verið gangbraut eða ekki, en ég hef margoft séð strætó vera ansi nærri því að keyra á gangandi vegfarendur. En auðvitað eru margir bílstjórarnir líka algjör gull. Eins og sá sem keyrir mig oft í vinnuna á morgnana og tekur aukarúnt með mig út af leið til að ég þurfi ekki að ganga eins langt eða sá sem stillir útvarpið í botn þegar Gerður B. Bjarklind byrjar með óskastundina í útvarpinu. En ég held að Strætó BS ætti að reyna að ala suma af þeim betur upp. Menn í þjónustustörfum eiga helst ekki að vera fúllyndir,frekir,taugaveiklaðir rasistar með mikilmennskubrjálæði. Það er nú einu sinni allra hagur að almenningssamgöngur séu sem mest notaðar.
|

Lágmenning, hámenning, ómenning

Helgin var viðburðarík hjá hinum föla faðir. Á föstudagkvöldið fórum við fjölskyldan í afmæli til Guðnýjar (mér hefur láðst að setja tengil á síðuna hennar hér til hliðar en bætt hefur verið úr því nú þar sem hún er að sjálfsögðu snillingur . En það er sú krafa sem ég geri til að fólk fái nafn sitt á Bjarnalandið). Eftir að hafa hámað í mig alveg hreint brjálæðislega góðan pottrétt var ég sviptur sveindómnum. Ég horfði nefnilega á minn fyrsta Ædol þátt. Ég hef notað öll fúkyrði sem ég kann um þennan þátt hingað til, viljað halda að þetta væri barnaefni eða einhverskonar Samfésskemmtun, sennilegast reyni ég að halda kjafti um Ædolið í framtíðinni. Þetta var nefnilega hreint ekkert leiðinlegt. Eiginlega bara doldið skemmtilegt. Reyndar datt frændi minn hann Davíð úr keppni, en við Hekla erum alveg viss um að það sé bara út af fíflaskapnum og athyglissýkinni í honum Herði föður hans sem þurfti endilega að sýna sitt rétta eðli akkúrat þar og þá.

Á laugardagskvöldið fór ég síðan á árshátíð hjá mínum gamla grunnskóla og vinnustað frúarinnar, Hólabrekkuskóla. Mikið vildi ég að ég hefði komist á þessa samkomu þegar ég var 15 ára, helst með myndavél. Gagnfræðiprófin mín hefðu ábyggilega haft á sér annan og glæstari brag ef það hefði verið.Ég komst nefnilega að heilmörgu á þessari árshátíð. Td. að kennarar eru strigakjaftar sem hugsa aðeins um eitt og það er ekki neitt sem mér var kennt í skóla. Að kennurum finnst fátt skemmtilegra en að skála, þeim finnast holræsagjöld vera frá andskotanum kominn. Þeim finnst rosalega gaman að syngja, þó einungis um aðra kennara og getuleysi nemenda. Þeim finnst fátt fyndnara en kjarasamningabrandarar, sem oft kalla á miklar og heitar umræður og afskaplega leiðinlegar. Og að kennarar kunna alls ekki að gera skemmtiatriði. Fjörugrjót er skemmtilegra en þetta, það er þó ekki leiðinlegt. Sem betur fer vorum við löglega afsökuð frá þessari samkundu því að við þurftum að vakna snemma til að fara í messu. Já öðruvísi mér áður brá en þetta er dagsatt


Á sunnudeginum var semsagt vaknað snemma og farið í messu, þar sem Hekla Bjarnadóttir sýndi gríðarlega takta í söngnum. Var það á vitorði manna að þessi unga stúlka hefði afskaplega þroskaðan og fallegan söngstíl og heyrðist hvíslað að hún myndi án nokkurs vafa sigra ædolið næst og júravisjónið þarnæst (þar sem hún kemst ekki næst vegna frekjunnar og truntuskapsins í ungfrú Selmu yfirgangsömu) Eftir messuna reyndist svo nauðsynlegt að fara í sund og þvo af sér helgislepjuna með nokkrum hressandi rennibrautarferðum og frístælkeppni í dýfingum. Jæja segi þetta gott í bili og kveð því eins og konungurinn Gunnarsson:

Verið hress, ekkert stress og blessss.
|

Tuesday, March 01, 2005

Tilvera mín í kökuboxi.

Að koma þriggja manna fjölskyldu fyrir í sjö fermetrum er enginn hægðarleikur. Yngsti herbergisbúinn þarf að sjálfsögðu að hafa kojuna sína, skrifborðið, allt dótið sitt og óendanlegt magn af fötum auk síns hógværa parts af herberginu til að raða upp barbiehúsum og æfa dans. Frúin er lágstemmdari í þörfum sínum og tók einungis með sér það allra nauðsynlegasta, ss. 3 kassa af snyrtivörum, 4 svarta ruslapoka og eina kommóðu af fötum, 2 kassa af bókum, sjónvarpið, videoið og dvd spilarann svona til vonar og vara ef hin þrjú sjónvörpin á heimilinu myndu bila. Sjálfur tók ég með mér eina sundtösku með fötum og sexkant til að skrúfa kojuna saman með. Fæ að geyma þetta fram í forstofu fyrir aftan spariskófatnað konu minnar og barns.


Þetta er svona doldið eins og að æfa dans að fara um herbergið okkar. Eitt skref áfram, tvö hænuskref til vinstri, eitt áfram og tvö til hægri. Þið gætuð kannski haldið að þetta væri einhver nýr funky ræll en svo er ekki. Þetta er eina færa leiðin upp í rúm. Í gegn um leiksvæði dótturinnar,til vinstri framhjá óhreinatauinu, þá er það beygja fram hjá fataslánni,framhjá sjónvarpinu og þá blasir rúmið við beint fyrir aftan tölvustólinn. Eftir mánuð verðum við farin að ganga allt í krákustígum. Fólk mun horfa á okkur og hvísla að þessi fjölskylda hafi verið alin upp á jarðsprengjusvæði eða hafi verið að hefja útgerð og hafi svona svakalega sjóriðu.

Við værum svosem alveg til í að hafa eitthvað smá pláss í viðbót. Kanski svona 70 fermetra. En nú erum við orðin svo pjöttuð á leigusala að það verður sennilegast aldrei. Venjulega hrökklast þeir frá eða springa úr reiði þegar við biðjum þá um að fara í viðtal hjá geðlækni sem við þekkjum og bendum þeim vinsamlegast á að fara í hjónabandsráðgjöf.
|