http://www.makepovertyhistory.org

Thursday, December 30, 2004

Það er jú sælla að gefa en þyggja

Töluverður áróður fyrir því að Íslendingar spari við sig í flugeldum og leggi frekar aurana í hjálparstarf hefur farið nokkuð hátt undanfarna daga eða síðan að fréttir fóru að berast af hrikalegum náttúruhamförum í Asíu, og að sjálfsögðu er það hið besta mál að hinn almenni Jón Jónson leggi sitt af mörkum til aðstoðar. En samt finnst mér nú ekki beinlínis rétt að teygja hina líknandi hönd ofan í götótta vasa hjálparsveitanna til að róta eftir aurum, því að eins og allir vita eru hjálparsveitirnar að langmestu leyti reknar fyrir það fé sem fæst af sölu þessari. Setti þetta mig í mikið uppnám því ég sá að illa myndi ganga að biðja fólk um að spara við sig í áfengi,tóbaki,sælgæti eða öðrum nauðsynjavörum,hvað þá að taka það á vísa rað, þó svo að ég gæti aðeins dregið þessa vísindalegu ályktun af sjálfum mér og mínum nánustu. En þar sem ég sit og velti þessu fyrir mér, hvaðan þessir fjármunir ættu þá eiginlega að koma þá lýstur því niður að þeir ættu að sjálfsögðu að koma þaðan sem nóg er af þeim. Og hvar skyldi það vera, jú ég leyfi mér að leggja til að fyrirtækin í landinu (olíufélög, tryggingafélög, bankar, o.s.f.r.v. hin stöndugri fyrirtæki) gefi sem nemur kanski 1-3% af hagnaði sínum í desembermánuði í þetta góða málefni.
Ég leyfi mér að benda á að slík almenn beiðni til fyrirtækja væri einstök vegna einstakra atburða og mjög ósennilegt að slík beiðni kæmi aftur á næstu árum, og að rausnarleg gjöf sem þessi myndi vekja heimsathygli, jafnvel myndu fyrirtæki (sem sum hver velta margföldum fjárlögum íslenska ríkissins) utan landsteinanna sjá heiður sinn í að gera slíkt hið sama.

Að endingu vil ég lýsa stolti mínu á íslensku þjóðinni fyrir hversu hratt og vel hún hefur brugðist við neyðarkalli þessu það hafa nú þegar safnast miklir fjármunir í þetta hjálparstarf og enn er þjóðin að gefa þrátt fyrir erfiðan mánuð á allflestum heimilum landsins.

|

Monday, December 27, 2004

það er gott að ætla að vera góður

Hinn föli faðir lá afvelta í sófa þeim er hann hefur til afnota (hin föla móðir hefur að sjálfsögðu eignað sér stóra þægilega sófann eins og fordæmi eru víst fyrir á öllum betri heimilum) strauk laust um þaninn magann og ropaði af mikilli karlmennsku,það er gott að vera íslendingur sagði ropinn eins og Gunnar Birgisson væri stiginn upp á stofuborð reiðubúinn til að sannfæra líðinn um ágæti stjórnar vorar.Hin föli faðir lokaði munninum og kyngdi næsta ropa.Það eru jú gömul tíðindi en sönn að félagi Gunnar og hans flokksmenn hafa þjálfað upp þann hæfileika að sjá ekki þá er búa við bágan kost hér á landi og virðast álíta að fátækt finnist einungis utan hins vestræna heims."Nei andskotinn hafi það,það getur verið helvíti skítt að vera íslendingur "hrópaði ég yfir stofuna svo að hin föla móðir hrökk upp af sínum langþráða bjútíblund með andfælum,leit á mig ljúfmennskan uppmáluð og sagði "já Bjarni minn þegar manni er meinað að fá sér 10 minutna bjútíblund þá er andskoti skítt að vera íslendingur".Ég setti upp hvolpasvipinn og reyndi að útskýra með minni mýkstu röddu hvurnig ropinn hefði komið mér til að segja þetta,að hann hefði hreinlega hrokkið til mín aftur eins og skopparabolti sem endurkastast af húsnæði mæðrastyrksnefndar og lent í miðjum heila mínum,þar sem að samkenndin býr en ég sá að það væri sennilega öruggara að færa mig um set með þessar hugsanir mínar í rúmu húsnæði okkar,settist inn á klósett og kveikti á kerti ."Já það er bara andskoti skítt að vera íslendingur "sagði ég við vaskinn vitandi að hann myndi bera orð mín um alla Reykavík um holræsakerfið og alla leið niður að sjó.Ég hugsaði stíft, um alla útigangsmennina sem ég sé á hverjum morgni niður á hlemmtorgi,um röðina hjá hjálparstarfi kirkjunnar,um öryrkjana sem enginn vill sjá og þarna þar sem ég sat við kertaljós á klósettinu ákvað ég að þessu fólki þyrfti hinn föli faðir að hjálpa,nú yrði farið með fatapinkla í mæðrastyrksnefnd,keyptir happdrættismiðar af blindum,tekin með heit súpa á brúsa á morgnana handa hinum þurfandi á hlemmtorgi,skrá mig sem símasvarara hjá vinalínunni,gott ef ég fer ekki að flokka rusl,hætta að reykja,syngja í kór hjálpræðishersins og smíða fuglahús og hengja upp víðsvegar um reykjavík.Strax á morgun eða hinn,ekki seinna en eftir áramót,um leið og ég hef tíma.
|

Thursday, December 23, 2004

Úr moldarkofa í ljósleiðara

Hinn föli faðir,konungur Bjarnalands komst íllilega í snertingu við tæknisamfélagið nú núverið þar sem dætur hans 2 og hans ektakvynna , tengdaforeldrar,aldraðar gigtveikar frænkur,alþingismenn vorir,mennirnir sem fjarlæga ruslið,ákafir áfengifíklar á samkomu bakkusar,stelsjúkar húsfrúr með rúllur já svona hér um bil allir er einhverja virðingu bera fyrir sjálfum sér eru svokallaðir bloggarar.Setti þetta mig í mjög svo óverðskuldaða aðstöðu þar sem ég var nú talinn maður einsamall mjög svo utan alfaraleiðar eins og eymingja 98 ára gamli bóndinn á tungu í einhverssveit sem á ekki gsm síma.Það þarf varla að fjölyrða um þá sálarkrísu sem þetta setti mig í svo ekki sé minnst á líkamleg einkenni þau er er voru farin að láta á sér kræla eftir andvökunætur þær er þetta olli mér.Að endingu var mér það ljóst að eina leiðin er fær væri úr þessum ógöngum mínum væri að stíga inn í ljósið,fyrir framan tölvuskjáinn og taka eldskýrn þá er veraldarvefurinn veitir,endurfæðast inn í heim tækninar og kveðja vin minn á tungu í einhverssveit, tilbúinn til að takast á við samfélagið.
|