http://www.makepovertyhistory.org

Saturday, January 08, 2005

Vaknað,verslað,undið og syrgt

6 .janúar. Vaknaði kl. 7:20, rauk að kaffikönnunni og hellti upp á kaffi sem hefði hæglega brennt gat á varnarbrynju kjarnorkukafbáts, hlunkaði mér niður í sófann og saug að mér dauðhreinsuðu lofti gegn um filter. Aðrir meðlimir heimilisins voru langt komnir í morgunverkunum og áttu aðeins eftir nokkrar teygjuæfingar áður en verkefni dagsins yrðu leyst af hendi með bros á vör. Ég fékk mér annan kaffibolla og tautaði geðsýkislega ofan í hálsmálið ”á morgun það kemur annar strætó á morgun".


7. janúar. Vaknaði kl. 7:00 og hafði verið svo heiftarlega snjall að stilla tímastillinn á kaffikönnunni. Áður en ég klæddi mig fór ég út á svalir og velti mér í snjónum, en það hafði frekar vafasamur náungi á Hlemmi sagt mér að væri allra meina bót, ekkert væri meira hressandi nema kannski ein Ákavíti með matnum. Þetta rosa fína trix gerði það að verkum að ég missti af 3 strætisvögnum, mætti í vinnuna kalinn og kvalinn.


8 janúar.Andlega undir það búin að sofa út var ég vakinn við englaraddir dætra minna syngjandi um Ólaf Liljurós. Panikið sem ég fékk meðan ég var að ná fókus var gríðarlegt, þar sem ég skráði mig í Ásatrúarfélagið fyrir skömmu áleit minn gríðarlega morgunhressi heili að ég væri látinn og kominn til heljar. Eftir að hafa tekið á mér púlsinn, mælt hitastig mitt og reynt að hlusta með jákvæðu hugafari á 100% nylon sannfærðist ég þó um hnattstöðu mína og lífsmark. Áætlanir mínar um notalegheit og almenna svefnsýki á heimilinu urðu fljótlega að engu er tilkynnt var úr hátalakerfi hússtýrunnar að næsti áfangastaður væri vagga íslenskrar menningar, Smáralind. Fagur litur húðar minnar fór úr fölu í trabantsgrænt, en við því var ekkert að gera því Bryndísi Bjarnadóttur, frumburði mínum bráðvantaði úlpu og var Smáralindin talin skotheldur staður til að nálgast þá nauðsynjavöru. Þegar komið var í Smáralind vandaðist málið, því að úlpa mun ekki vera það sama og úlpa. Í nútímasamfélagi ungra telpna telst úlpa ekki halda vatni né vindum hvað þá mínus tölum á celsiuskvarða nema svört sé og stutt með veglegu stroffi. Eftir gríðarlega leit að slíkum gæðagrip í allflestum verslunum musterissins fannst ákjósanleg málamiðlun í Hagkaupum (þar sem er víst skemmtilegast að versla) og út var gengið með marga poka troðna af nauðsynjavörum. Marga jú því að karlmennið á heimilinu og einn helsti hatursmaður fataverslanna á landinu fékk hreinlega kaupæði þegar hann sá allar þessar hræbillegu gæðavörur á janúarútsölunum og er hann nú í banni frá verslunarferðum þar til að lífsmark að ráði fer að finnast á bankareikning hans. Sigrún keypti líka handa mér hermannaklossa allgæðalega úr þykku og fallegu leðri sem fengju hverja belju til að öðlast takmark í lífinu.


Þegar heim var komið og búið að gæða sér á vínarbrauðum og risakleinum bökuðum af sjarmatröllsbakaranum Jóa Fel. tók alvara lífsins við. Þannig er mál með vexti að þvottaæði greip um sig á heimilinu, mikið var þvegið og vel og lenti gsm síminn minn á geysilega intresant prógrammi í þvottavélinni. Ekki ætla ég að mæla sérstaklega með þessari aðferð við að hreinsa síma en þó verður að segjast að hann leit alveg hreint æðislega út. Ákveðið var að reyna að þurrka hann með sokkunum á aktífasta og besta ofni Breiðholtsins sem vill svo heppilega til að er í eldhúsinu hjá okkur og var nú kominn tími til að reyna þvottheldni hans. Það heirðist lágt hviss þegar reynt var að kveikja á honum, skráður dánartími er 18:13. Blóm eru afþökkuð en nýr sími væri vel þeginn helst þvottekta.

|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home