http://www.makepovertyhistory.org

Saturday, April 09, 2005

klaufaskapur minn

Ég er klaufi. Við því er ekkert að gera ég hef verið og mun alltaf vera klaufi. Reyndar las ég einhverstaðar að það væri til læknisfræðilegt heiti á svona klaufaskap, þetta heitir víst dispraxia. Það getur verið kómískt að vera haldinn þessum krankleika en einhvernvegin fer húmorinn í hlutunum alltaf fram hjá mér. Td. var ég að hjálpa dóttur minni henni Heklu að skrifa ósýnilega skrift með sítrónusafa. Til þess að skriftin komi svo í ljós þarf að hita blaðið. Rödd skynseminar þ.e.a.s. Heklu sagði að við skildum strauja blaðið. Hin föli faðir, minnugur þess að hafa séð þetta gert í hinni frábæru mynd "Í nafni rósarinnar" þá með eld, dró upp Zippóinn. Svipurinn á Heklu hefði átt að segja mér að ég ætti að setja upp strauborðið. Hún var alveg eins á svipinn þegar ég ætlaði að losa stífluna úr tómatsósuflöskunni með því að kreysta bara nógu fast og þegar mér tókst næstum að gera við miðstöfðarofninn með steikarhnífnum. En ég kveikti auðvitað á zippónum og byrjaði að hita blaðið ofurvarlega. Auðvitað kviknaði í andskotans blaðinu og þar sem ég kunni nú ekki alveg við að fleygja því í sófann eða á 500 króna persnesku mottuna hennar mömmu sem ég keypti í rúmfatalagernum handa henni og gaf henni í jólagjöf um árið gekk ég af stað með það pollrólegur að eldhúsvasknum. Þessi taóíska rósemd mín var af öllum viðstöddum talin undraverð. Þessi þrjú skref sem hún entist. Á fjórða skrefi var ég farinn að öskra eins og Tarzan og á fimmta eins og bróðir hans. Þegar ég komst loks að eldhúsvasknum var ég búinn að gefa frá mér tóna sem hefðu fengið Maríu Markan og Jimi Hendrix til að verða græn úr öfund. Blaðið lá allt sundurbrennt á gólfinu og það eina sem náði í vaskinn var sótug hendin á mér. Og almáttugur hvað hún þurfti á því að halda. Ég held að ég hafi aldrei séð umhyggjusamt fólk eins brosmilt og þegar fjölskyldan kom til að athuga líðan mína. Og ég held að aldrei hafi nokkur maður verið eins fúll yfir umhyggju sinna nánustu á sér. Það versta við þetta er samt kannski að ég mun alveg pottþétt ekki læra neitt af þessu. Á morgun verð ég ábyggilega farin að gera líkan af Hallgrímskirkju úr títuprjónum eða sauma mér hengirúm úr öllum stöku sokkunum mínum
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home