http://www.makepovertyhistory.org

Tuesday, January 11, 2005

Valkyrjan Matthíasdóttir

Ég er mikill aðdáandi Valgerðar Matthíasdóttur, í gegnum tíðina hef ég borið við faglegum áhuga þar sem ég vinn við að smíða innréttingar en sannleikurinn er sá að Vala Matt. er hin fullkomna kona í mínum huga. Árum saman hef ég logið mér upp verkjum í fótum eða baki, þóst vera að þurrka af sjónvarpinu eða fundið mér einhverja þokkalega trúanlega ástæðu til að vera fyrir framan sjónvarpið kl. 21 á þriðjudagskvöldum þegar að valkyrja smekkvísinnar stígur fram fyrir alþjóð ásamt meðreiðarfólki sínu í sjónvarpsþættinum Innlit útlit. Alltaf stígur valkyrjan sjálf fyrst á stokk, svo geislandi af hreysti og smekkvísi að maður fær hroll af aðdáun svona eins og ég fæ alltaf þegar ég hlusta á Janis Joplin syngja summertime. Og þvílík smekkvísi. Ég held að Vala Matt. sé svona 9 hæðum ofar en allir aðrir þegar kemur að því að hafa vit á hönnun og handbragði. Henni finnst hreinlega allt flott. Þó henni væri sýnt haughús gæti hún fundið á því einhverja góða punkta, "rosalega er þetta praktísk hönnun" eða "já þú hefur ákveðið að hafa veggina svona hráa, bara steypuna ekkert málað" eru setningar sem Valgerður gæti sagt og meint um eitthvað sem við hin vildum helst ekki koma nálægt. Og ef eigandi haughússins væri kannski eitthvað ósáttur við það myndi Vala ekki vera í vandræðum með að gera úr því tannlæknastofu án þess að kosta neinu að ráði í það. Og ekki má nú gleima förunautum Völu en þeir hafa verið alveg dásamlegir sumir hverjir enda greinilega handvaldir af Valgerði sjálfri. Arthúr Björgvin Bollason var mjög djarft og skemmtilegt útspil og hefur hann ekki sést eins hip og flottur síðan hann lýsti júravisjón á sínum tíma. Sönn íslensk karlmennska þar á ferðinni. Friðrik Weitekkert var glæsilegur fulltrúi ungu kynslóðarinnar þar sem hann brunaði milli húsa og bannaði fólki að henda gömlu innréttingunum, þær væru svo góðar að þær ættu allavega 50 ár eftir, Katrí er greinilega einstaklega ráðagóð og sést það vel þegar hún fær fólk til að raða húsgögnunum sínum upp á nýtt og segir síðan að þessi hönnun sé mikið betri.
Núna áðan var ég að horfa á Stefán Boga "gera nýja innréttingu úr engu" eins og það var orðað. Það eina sem hann gerði var að skipta um allar hurðir og skúffufronta og þá var hún bara eins og ný. Magnað. Sérstaklega þar sem þetta lítilræði sem hann gerði kostar svona 70% af heildarverði alveg nýrrar innréttingar.


Að endingu vil ég nú benda á að Vala er nú gamall fréttarefur og datt mér í hug að þar sem stöð 2 var að reka Sigríði úr fréttastjórastöðunni væri alveg rakið mál að fá Völu í þetta. Hugsið ykkur bara hvað það væri frábært. Ekkert nema smekklegar og góðar fréttir. Og þó að ég vilji nú engum illt þá þyrfti hún nú að byrja á því að reka þennann lummulega Pál Magnússon.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home