http://www.makepovertyhistory.org

Friday, January 14, 2005

Íslenski draumurinn

Dimmblá er orðin 15 ára og er að útskrifast úr 10 bekk. Kennarinn er að kveðja bekkinn og spyr nemendur sína hvað þeir ætli sér nú með framtíðina. Orpheus ætlar að fara í stjórmálafræði, Armenía hefur hugsað sér að fara í líffræði, Cýrus ætlar að verða lögfræðingur eins og foreldrarnir, Dimmblá ætlar að vinna í frystihúsi eins og amma sín. Það slær þögn á bekkinn,"já ætlarðu þá að sjá um bókhaldið eða Evrópusamninga?" spyr kennarinn,"ætlar þú í lögfræði eða hagfræði eða eitthvað slíkt?" Nei ég ætla að vinna með höndunum, roðfletta, snyrta flökin og ormhreinsa.

Blessuð sé minning hennar. Hún var góð stúlka og fram að þessu hafði hún verið talinn greind og skynsöm, en hér skylja leiðir við hina Íslensku herraþjóð.

Hvaða rugl og vitleysa er nú farinn að flæða fram af fingrum hins föla föðurs? Getur verið að maðurinn sé endanlega búinn að tapa sér og væri best geymdur inn á hæli með Jesú hinum þriðja og Snorra Sturlunarsyni? Ekki skal ég dæma um það en menntasnobb landans er farið að fara verulega í mínar fínustu. Ekki get ég með nokkru móti skilið að þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leiti á fiskveiðum fái ekki þegna sína til að vinna í þeim iðnaði. Ekki er það talið boðlegt íslenskum að vinna við hvað sem er. Önnur starfsgrein sem menntasnobbið hefur farið með ljáinn um er vinna á öldrunarstofnunum. Þegar amma mín heitin (sem bakaði þær albestu pönnukökur sem sögur fara af) ákvað að fara á elliheimili þá orðin 92 ára gömul varð hún skyndilega mállaus, ekki vegna elliglapa eða líkamlegrar hrörnunar heldur vegna þess að gömlu konunni láðist að læra pólsku og kínversku.


Hinn Íslenska þjóð á sér nefnilega draum, háleitan og fallegan draum um menntaða þjóð sem aðrir líta upp til með lotningu, þjóð sem deilir auð sínum með þriðja heiminum vegna þess að við erum svo góð, þjóð sem selur hugvit og þekkingu yfir hafið til fjarlægra landa. Ríka og göfuga þjóð sem ekkert skortir, einskonar Atlantis, við gætum heitið Íslandis.


En þangað til að þetta verður að veruleika, á meðan að leiðtogar framtíðarinnar sitja á skólabekk og lesa um hvernig Ísland verður ríkasta þjóð í heimi þurfum við ódýrt vinnuafl til að vinna fyrir okkur, útlensk stófyrirtæki til að byggja stórar verksmiðjur og skattalöggjöf sem gerir okkur að vænlegum kosti fyrir auðmenn.



Árið er 2035 staður Fossvogskirkjugarður.
Það er verið að afhjúpa minnisvarða um hinn íslenska verkamann, hann stendur hokinn með stál í annari hendi og hníf í hinni. Við fætur hans liggja tvær verur, Óhamingja og Fáviska. Augnsvipurinn er einbeittur og dreyminn þar sem hann horfir í átt að háskólanum.



|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home