http://www.makepovertyhistory.org

Tuesday, March 01, 2005

Tilvera mín í kökuboxi.

Að koma þriggja manna fjölskyldu fyrir í sjö fermetrum er enginn hægðarleikur. Yngsti herbergisbúinn þarf að sjálfsögðu að hafa kojuna sína, skrifborðið, allt dótið sitt og óendanlegt magn af fötum auk síns hógværa parts af herberginu til að raða upp barbiehúsum og æfa dans. Frúin er lágstemmdari í þörfum sínum og tók einungis með sér það allra nauðsynlegasta, ss. 3 kassa af snyrtivörum, 4 svarta ruslapoka og eina kommóðu af fötum, 2 kassa af bókum, sjónvarpið, videoið og dvd spilarann svona til vonar og vara ef hin þrjú sjónvörpin á heimilinu myndu bila. Sjálfur tók ég með mér eina sundtösku með fötum og sexkant til að skrúfa kojuna saman með. Fæ að geyma þetta fram í forstofu fyrir aftan spariskófatnað konu minnar og barns.


Þetta er svona doldið eins og að æfa dans að fara um herbergið okkar. Eitt skref áfram, tvö hænuskref til vinstri, eitt áfram og tvö til hægri. Þið gætuð kannski haldið að þetta væri einhver nýr funky ræll en svo er ekki. Þetta er eina færa leiðin upp í rúm. Í gegn um leiksvæði dótturinnar,til vinstri framhjá óhreinatauinu, þá er það beygja fram hjá fataslánni,framhjá sjónvarpinu og þá blasir rúmið við beint fyrir aftan tölvustólinn. Eftir mánuð verðum við farin að ganga allt í krákustígum. Fólk mun horfa á okkur og hvísla að þessi fjölskylda hafi verið alin upp á jarðsprengjusvæði eða hafi verið að hefja útgerð og hafi svona svakalega sjóriðu.

Við værum svosem alveg til í að hafa eitthvað smá pláss í viðbót. Kanski svona 70 fermetra. En nú erum við orðin svo pjöttuð á leigusala að það verður sennilegast aldrei. Venjulega hrökklast þeir frá eða springa úr reiði þegar við biðjum þá um að fara í viðtal hjá geðlækni sem við þekkjum og bendum þeim vinsamlegast á að fara í hjónabandsráðgjöf.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home