http://www.makepovertyhistory.org

Saturday, February 05, 2005

Sjúkur ástarþríhyrningur

Eitthvað hefur misfarist í uppeldi hins opinbera á mér. Allavega er ég afskaplega fælinn á allar opinberar stofnanir, byrja að skjálfa þegar ég hugsa um eyðublöð og biðraðir, jakkafataklædda menn með skjalatöskur og nefmæltar afgreiðsludömur. Einn jakkafatamaðurinn veldur sérstakri skelfingu hjá mér, maður þessi hefur einstakt lag á því að vera uppáþrengjandi. Hann hefur t.d. ákveðið að ég sé ákjósanlegur bréfavinur og sendir mér löng og leiðinleg bréf algjörlega gerilsneidd allri innlifun eða húmor. Hann heitir Tollstjórinn í Reykjavík og er afskaplega uppáþrengjandi karakter, sendir mér í gríð og erg bréf þar sem hann reynir að kenna mér stærðfræði sem ég er löngu búin að læra. Hann er víst í sambúð þessi tollstjóri með manni sem heitir Skattstjórinn í Reykjavík og er næstskelfilegasti maður sem ég veit. Fullkomið par. Skattstjóranum langar líka að vera bréfavinur minn. Ótrúlegt en satt. Hans bréfaskriftir eru samt á persónulegri nótum en yfirleitt alltaf eins. Hvar vinnur þú, hvað þénar þú, hvað áttu mörg börn og hverjar eru kennitölur þeirra, ertu í sambúð? með hverri(hverjum) og hver er kennitala þess aðila? Að sjálfsögðu svara ég ekki svona spurningum þegar einhverjir kallar út í bæ senda þær bréflega, kallar sem ég þekki bara ekki neitt. Ég hef skrifað þeim og beðið þá um að láta mig vera, bent þeim á að mitt einkalíf komi þeim ekkert við og að þeir verði að reyna að finna sér aðrar leiðir í vinaleitinni. Bréf þar sem spurt er um hjúskaparstöðu og reynt að kenna stærðfræði geta komið illa við sumt fólk og þeir gætu átt von á kæru ef þeir hætta þessu ekki. Þeir létu mig í friði eftir þetta í doldinn tíma. En þá barst mér annað bréf. Þeir virðast vera þessi tollsjóri og skattstjóri í einhverjum mjög svo annarlegum ástarþríhyrning með manni sem kallar sig Sýslumanninn í Reykjavík og deilir hann þessum sjúka áhuga á mér með þeim og byrjaði að senda mér mjög ögrandi bréf þar sem hann vildi hreinlega eiga við mig stefnumót. Já ég segi það satt. Ég átti að hitta hann í vinnunni hjá honum. Ég er að hugsa um að reyna að fá nálgunarbann á þessa sjúku menn. Er búin að fara og skrúfa niður póstkassann og skipta honum út fyrir pappírstætara. Þorði ekki annað en að fá leyninúmer á símann og er að hugsa um að færa lögheimili mitt út í einhverja eyju á Breiðafirði. Rosalegt að lenda í svona klikkuðum köllum.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home