http://www.makepovertyhistory.org

Tuesday, February 15, 2005

Mánudagur til merkilegheita

Af hverju eru mánudagar til mæðu? Af hverju ekki mikilmennsku eða magadans, morgunverka eða marsipansáts? Einhverra hluta vegna eru mánudagar mér undantekningalaust til mæðu. Ég vakna alltaf of seint, missi af strætó, kem í vinnuna og kemst að því að það er kaffilaust og að ég er búin að gleyma öllu sem ég var að gera fyrir helgi. Allir sitja þegjandi og mæðulegir í kaffi og matartímunum nema þeir sem sjá ástæðu til að skæla yfir einhverju sem þeir gerðu á djamminu. Og svona eins og til að blessa andlegt ástand mitt og vinnufélaga minna hangir vinnuklukkan allt of hátt upp á vegg og vandar sig við að ganga mjög hægt, eins konar táknræn landamæri milli lífs og dauða. Ég hef stundum reynt að kasta spítukubbum og öðru drasli í þessa klukku svo lítið bæri á en það er eins og hún hafi einhvern djöfullegan verndarhjúp um sig þannig að það er alveg sama hvað ég grýti, aldrei sést svo mikið sem rispa á henni. Einu sinni reyndi ég að setja tvö batterí í hana í staðinn fyrir eitt. Vandaði mig mikið við að samtengja þetta allt saman , eyddi öllum matartímanum í þetta allt í þeirri von að hún myndi ganga á tvöföldum hraða. Dreif mig í að príla með hana upp og hengja hana aftur á naglann áður en forstjórinn minn kæmi úr mat, hálfdrap mig á leiðinni niður og steig á nagla. Klukkan gekk ekkert hraðar ef eitthvað var gekk hún heldur hægar.

Á sumrin er líka alltaf gott veður á mánudögum. Um helgar er oft svoleiðis snarklikkað veður, tjaldstæði verða að aurarpyttum og hjólhýsi fjúka. Sumarbústaðir verða að einangrunarklefum sökum veðráttu og fólk sem gistir í bændagistingu hálfklikkast, fer að ganga um í gúmmíbomsum með sjal og farið að taka í nefið. Síðan kemur mánudagur og BÚMM hvert hitametið af öðru fellur. En þá neyðist maður til að hanga hinum megin við landamærin, undir klukkunni glápandi út um gluggann slefandi úr öfund út í alla útivinnutöffarana.

Hvernig væri nú að þjóðin myndi breita mánudögum í daga hinnar stóísku róar? Reykvíkingar gætu til dæmis komið saman í Vonarstræti og stundað íhugun, fleytt kertum á tjörninni og hent úrum sínum í Ingólfsbrunn.Ég er viss um að andlegt jafnvægi þjóðarinnar myndi snarbatna við þetta.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home