http://www.makepovertyhistory.org

Monday, February 21, 2005

Bardagin við aukaorkuna

Langþráð heimkoma eftir óvenjustrembinn mánudag. Ég gekk glaður í fasi að hurðinni, tilbúin með lyklana rykkti henni upp og öskraði af sælu þegar að fyrsti sentimeterinn af skónum mínum fór yfir þröskuldinn. Ég sveiflaði hurðinni aftur, bauð góðan dag og sperrti eyrun í von um að heyra fjölskyldumeðlimina hlaupa í áttina að mér til að faðma mig, klæða mig úr skónum og gefa mér rjúkandi heitt og nýtt kaffi. Dóttir mín staulaðist á móti mér ekki valhoppandi og glöð eins og ég hafði búist við heldur þreytuleg og döpur.
Hekla: Pabbi, ég vil ekki svelta.
Sá föli:HA? Nei af hverju ættir þú að vilja það?
Hekla:Pabbi það er bara ekkert til að borða! Ég meina ekkert, núll allt búið eins og í páskaeggjaverksmiðju eftir páska. Þú verður að gera eitthvað í þessu. Ekki viltu svelta mig í hel er það nokkuð?
Sá föli: Nei auðvitað ekki en fórum við ekki að versla um helgina?
Hekla.Þú heldur þó ekki að þetta smotterí sem þú verslaðir dugi endalaust, ég er að stækka sko, meira að segja farin að nota skó nr. 34, verð 8 ára á árinu.
Ég sá að það þýddi ekkert að fara að gramsa í ísskápnum eða týna fram eitthvað úr skúffunum.Það var aðeins ein leið fær, leiðin út í búð. Kaskó er ágætis verslun, lágt verð og ágætis pokar, en þetta rússneska þema þeirra fer nú að verða dulítið þreytt. Kaskó hefur nefnilega þá sérstöðu að hafa nægt hillupláss en engin bílastæði. Þetta með bílastæðin truflar mig svosem ekki mikið en ég myndi nú vilja hafa meira í hillunum. En kanski er þetta bara gott mál maður prófar allskonar nýja rétti eins og hamborgara í orlydeigi og kjötbollur í pulsubrauði að ógleymdum uppáhaldsmat okkar Vesturberginga. Svissaða brúna banana með súrsætri sósu og rabbabaragraut.

Eftir að hafa mettað maga minn og heimasætunnar lá leið mín upp í sófa þar sem ætlunin var að segja frá hörmungum dagsins. Frá bognum nöglum, brotnum borum, bitlausum sagarblöðum og óþekkum spítum. Frá fúllyndum fasískum strætóbílstjórum, frá fiskifýlunni í fjarkanum, lapþunnu kaffinu á Hlemmi, frá helvítis jeppanum sem gusaði yfir mig hálfu norður Íshafinu án þess svo mikið sem að hægja á sér. Að lokum ætlaði ég að lauma því að svona án þess að mikið á bæri að bakið á mér hreinlega hrópaði á að vera nuddað af einhverjum mjög nákomnum mér. Ég gat sat frá bognu nöglunum en þar var ég stoppaður. Usssssssssssssssssssssssss fyrsti Survivor! Sumir fara í messur, aðrir stunda íhugun, hin föla frú horfir á Survivor. Að mæla meðan á messunni stendur er að fremja helgispjöll og þá á maður á hættu að verða tekinn fyrir af hinni fölu rannsóknarnefnd. Það er ekkert sem maður leikur sér að. Annars er raunveruleikasjónvarp eitthvað sem ég hef engan skilning á. Hvaða raunveruleika er verið að tala um? Ef það er raunveruleiki lífsins að sitja fastur á eyðiey með helling af öðru fólki og sjónvarpstökuliði eða að keppa um að verða næsta súpermódel Amríku eða kannski að velja sér eiginkonu úr 20 stúlkna hópi á 5 dögum hlýt ég að lifa einstaklega óraunverulegu lífi. Það væri nær að gera þætti um mig þá. En þessi raunveruleikasjónvarpspirringur er nú alveg efni í annað blogg.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home