http://www.makepovertyhistory.org

Tuesday, January 25, 2005

Dulkvóðaðar þvottavélar og iðngreinar

Ég er nútímamaður. Vakna (varla þó) við vekjaraklukkuna í gsm símanum mínum, fæ mér rjúkandi kaffi úr tímastilltu kaffikönnunni minni. Fylgist með fréttum á netinu og á textavarpinu, heyri þær líka á klukkustundar fresti í tölvustírða útvarpinu á heyrnarskjólunum mínum. Ég fer heim til gamlingja og stilli sjónvörp og dvd spilara og í vinnunni vinn ég aðalega á tölvustýrðri trésmíðagræju. En ég hef aldrei getað lært alminnilega á þvottavél.Ég held að þvottavélar séu dulkvóðaðar, og þó þeim fylgi nákvæmur leiðarvísir meikar hann ekkert sens. Af hverju í ósköpunum þarf maður 200 prógrömm til að þvo þessa leppa sína? Eitt prógramm fyrir mjög skítugar gólftuskur og spariskyrtur, annað fyrir fyrir sokka með táfýlu af gerð 3 og sundföt, enn annað fyrir þæfðar ullarbrækur og þvottapoka. Hvurninn á maður að muna þetta? Ég held að þvottavélaframleiðendur séu í einhverju leynibandalagi, þeir reyna að troða svo mikið af tökkum og snúningsskýfum,ljósum og bókstöfum á þessar græjur að nútímamaðurinn fellur í trans þegar hann sér þær og verslar þær sem í leiðslu. Ég veit ekki betur en að hún amma mín hafi bara farið með druslunar út í læk, og gott ef þær urðu bara ekki hreinar.



Annað sem er mér görsamlega lokuð bók eru iðngreinar. Það vantar nú nokkra kafla í þá bók, það er eiginlega ekki farið að skrifa neitt í hana ennþá. Að vera iðnaðarmaður er undarlegra og óverðskuldaðra djobb en mér hefði órað fyrir í mínum villtustu draumum. Sérstaklega finnast mér peningamálin undarleg. Ég skal taka 2 dæmi,

Iðnaðarmaður fær símtal síðla kvölds. Á hinum enda línunar er maður sem bráðvantar vegg helst strax til að hengja nýja 400 000 kr sjónvarpið sitt á. Iðnaðarmaðurinn mætir á staðinn og gerir tilboð, tilboðinu er tekið og allir eru voða glaðir. Iðnaðarmaðurinn fer með bros á vör í húsasmiðjuna kaupir efni í vegginn, pantar og borgar sendibíl undir það og mætir á staðinn til í slaginn. Einum og hálfum degi seinna er hann að bera seinustu efnisafgangana út í gamla ryðgaða bílgarminn sinn til að fara með þá á sorpu, þar sem hann þarf að borga fyrir að farga þeim. Veggeigandinn stendur með bros á vör í hurðinni og þegar margumræddur iðnaðarmaður er að ganga út heyrir hann sagt að baki sér. "Hurðu ég tala svo við þig í næsta mánuði ég á nefnilega von á peningum þá".....Mér þætti gaman að sjá hann reyna þetta í hagkaup. Ekki get ég farið út í búð og borgað seinna.Af hverju fær hann sér ekki bara vegg í næsta mánuði? Ótrúlega algengt dæmi og sennilegast bara af því að við látum þetta yfir okkur ganga. Það er eins og okkur finnist þetta bara eðlilegir viðskiptahættir.


Þar sem ég er smiður ætla ég að taka annað dæmi úr þeirri mögnuðu stétt.Jesú fór jú að prédika þegar hann gafst upp á þeirri eðlu starfsgrein.

Smiður fær það eðla verkefni að smíða glugga. Hann fer því í Húsasmiðjuna eða Byko í efnisöflun. Þegar hann kemur niður á verkstæði með þessar líka fínu spítur ákveður hann að fá sér kaffibolla og kíkja í blaðið. Á bls 4 í blaðinu er heilsíðuauglýsing frá efnissalanum. Unnið gluggaefni á tilboði stendur stórum stöfum og fyrir neðan er mynd af handlögnum faðir að skrúfa saman glugga með börnin sér til halds og trausts. Öll brosandi og ánægð yfir því hvað það er nú létt og gaman að smíða svona glugga. Óunnið gluggaefni var ekki á tilboði, Óunnið gluggaefni er dýrara en unnið gluggaefni. Efnissalinn á nefnilega verksmiðju í lettlandi þar sem hann lætur framleiða unnið og óunnið gluggaefni og samsetta glugga fyrir íslandsmarkað. Hann á líka trjávinnsluna og hlut í skipafélagi. Þannig er efnissalinn helsti samkeppniaðili smiðsins. Húsasmiðjan og byko framleiða líka innréttingar og eiga trésmíðaverkstæði sem er í beinni samkeppni við okkur.Þetta látum við líka yfir okkur ganga án þess að einu sinni heyrist í okkur múkk.


Og svona að lokum. Hafið þið prófað að spyrja iðnaðarmann hvernig gangi? Ég hugsa að í svona 80% tilfella verði viðkomandi doldið niðurlútur og segi svo lágt að það varla heyrist "svona þokkalega". Svona eins og hann sé að deyja úr skömm yfir kunnáttuleysi eða einhverju. Geta menn ekki bara sagt að hlutirnir gangi hratt og vel kanski framar björtustu vonum,hvernin sem gengur? Þessi barlómur í mönnum skilar engu nema vandræðum. Þeir þurfa að þá að fara að útskýra hvað gangi ekki nógu vel og af hverju o.s.f.r.v.

Ég er kanski búin að láta pirringinn taka alveg stjórnina núna. En mér sýnist að iðnaðarmenn séu ekkert nema aular.

|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home