http://www.makepovertyhistory.org

Friday, January 21, 2005

Bóndadagur,upphaf súrra punga

Í dag er Bóndadagur, langþráður af íslenskum karlmönnum. Ekki vann ég keppnina kynþokkafyllsti karlmaðurinn á Rás 2 þetta árið en læt það ekkert á mig fá fullviss um að vinna hana næst. Bóndadagur og Konudagur eru gamlar og góðar íslenskar hefðir og hef ég líka heyrt að til sé íslenskur dagur sambærilegur Valetínusardeginum, það ku vera Sumardagurinn fyrsti. Persónulega finnst mér nú að Íslendingar ættu að heiðra þann dag frekar en daginn hans Valetínusar, það er líka eitthvað svo viðeigandi að heiðra ástina á degi sem er tileinkaður frjósemi og góðri tíð. Bóndadagur er líka táknrænn sem 1. dagur Þorra. Mér finnst það afskaplega ósanngjarnt að tengja þennan notalega dag við draugúldinn mat. Þannig lendir margt karlmennið í þeirri skelfilegu aðstöðu að konan hans ætlar sér að vera virkilega góð við hann. Og þegar hann kemur heim tilbúin til að sökkva sér í sófan og láta færa sér kaffi og konfekt jafnvel lítið staup af koníaki svona til hátíðarbrigða. Þá er skellt á stofuborðið trogi fullu af ónýtum mat og Brennivínsflösku. Síðan standa þessar elskur brosandi fyrir framan okkur fullvissar þess að þetta hafi við nú hitt í mark. Og við verðum að gleypa þetta í okkur svona til sönnunar þess að við séum karlmenni komin af víkingum. Það er nefnilega svo undarlegt með þennan þorramat. Loksins þegar íslendingar voru allflestir a.m.k. hættir að láta sér detta í hug að éta þetta íllmeti þá datt einhverjum snillingnum í hug að akkúrat þetta væri nú sniðugt að halda í, þetta væri svo stór hluti af hinni íslensku menningu, og svo hélt hann Þorrablót. Einhverstaðar heyrði ég að það séu ekki nema svona 50 ár síðan og að þetta þorrablót hafi verið haldið á Naustinu. Og Þorrablót eru þjóðlegur og góður siður ekki ætla ég að setja út á það en mér er fyrirmunað að skilja af hverju það þarf að vera eitthvað tengt við skemmtun eða gamla góða daga. Mér finnst að íslendingar ættu að vera háskælandi á þorrablótum og minnast þeirra tíma þegar að þeir þurftu að versla maðkað mjöl af dönskum.


Ekki held ég að fólki finnist þetta verulega góður matur. Allavega ekki nærri eins mörgum og vilja meina að þeim finnist það. Allflestum finnst nú nóg að fara á eitt þorrablót á ári og ekki veit ég um neinn sem vildi vilja hafa þetta í matinn á jólunum. Þetta er svona eins og skatan sem öllum finnst vera þvílíkt hnossgæti en borða bara á Þorláksmessu. Enda var það ekki komið til af góðu að íslendingar hafi söfnuðu pungum í fötu og helltu mysu yfir og átu það svo þegar allt annað var þrotið mörgum mánuðum seinna.


Svo þegar þessu þorrastandi linnir svo þá er það konudagurinn. Ég held að konan mín yrði nú ekkert sérstaklega ánægð ef ég gæfi henni súrmat og svartadauða, kyssti hana á kinnina angandi af úldnum hákarl og segði nú er akkúrat tíminn til að borða þetta alveg í endann á þorranum þá er þetta bragðmest og best. Sennilegast yrði troginu fleygt út af svölunum og mér með.
|

0 Comments:

Post a Comment

<< Home